Innlent

Bílaleigubílar langdýrastir á Íslandi

Brjánn Jónasson skrifar
Margir ferðamenn sem koma hingað til lands leigja bíl á Keflavíkurflugvelli og ferðast um landið. Leigan getur kostað margfalt meira en í nágrannalöndunum.
Margir ferðamenn sem koma hingað til lands leigja bíl á Keflavíkurflugvelli og ferðast um landið. Leigan getur kostað margfalt meira en í nágrannalöndunum. Fréttablaðið/GVA
Ferðamenn sem leigja bíl í vikutíma á Íslandi í júlí geta búist við að þurfa að greiða nærri þrefalt hærri leigu en fyrir sambærilegan bíl í Danmörku. Samkvæmt óformlegri verðkönnun Fréttablaðsins á bílaleigum á nágrannalöndunum eru íslensku bílaleigubílarnir lang dýrastir.

Fyrir bílaleigubíl af minnstu og ódýrustu gerð hér á landi þarf að greiða 76.403 krónur fyrir vikutíma um miðjan júlí hjá bílaleigunni Sixt, sem bauð upp á besta verðið samkvæmt samanburði á vefsíðum bílaleiganna í gær.

Aðrar bílaleigur voru dýrari, leigan fór hæst í 118.900 krónur hjá Hertz, þar sem verðið var hæst. Meðalverðið á bílaleigubíl fyrir viku um miðjan júlí reyndist vera um 98.500 krónur hjá þeim bílaleigum sem Fréttablaðið skoðaði. Það eru rúmar 14 þúsund krónur á dag.Bílaleigur í nágrannalöndunum bjóða upp á mun betri verð. Í Danmörku má leigja bíl í viku í júlí fyrir tæplega 28 þúsund krónur. Í Svíþjóð þarf að greiða tæplega 33 þúsund fyrir sama tíma. Í Noregi, eina landinu í verðkönnuninni sem komst nálægt Íslandi í verðum, var ódýrasti bíllinn á rúmar 63 þúsund krónur.

Ísland kemur ekki betur út í samanburði við lönd utan Norðurlandanna. Ódýrasti bíllinn í Bretlandi kostar 33 þúsund krónur þessa viku um miðjan júlí. Sambærilegur bíll kostar rúmlega 41 þúsund í Frakklandi, og aðeins 29 þúsund krónur í Þýskalandi.

Til að bera saman sambærilega bíla var aðeins skoðuð leiga á nýjum eða mjög nýlegum bílum. Hægt er að leigja ódýrari bíla hjá ýmsum bílaleigum, en þá eru bílarnir gjarnan eldri. Aðeins voru skoðaðar þrjár bílaleigur í löndum öðrum en Íslandi og aðeins skoðuð verð sem boðið var upp á á síðunum. Því er ekki útilokað að hægt sé að finna hagstæðari verð.

Snýst um framboð og eftirspurn

„Þetta er bara framboð og eftirspurn,“ segir Hjálmar Pétursson, forstjóri ALP, sem rekur bílaleigurnar Budget og Avis. Hann segir að á móti komi að íslenskar bílaleigur séu ódýrari á veturna. 

Ekki var hægt að sannreyna þá fullyrðingu, því þegar Fréttablaðið reyndi að bóka bíl í febrúar á næsta ári voru verðin svipuð og nú. Hjálmar segir að ekki sé búið að breyta verðskránni, en það verði gert.

„Hringdu í mig í febrúar, þá færðu súper-díl, þá er allt flæðandi í bílum og engir kúnnar,“ segir Hjálmar.

„Við erum dýrir á sumrin, það er bara þannig, er það ekki bara gott? Það er þá nóg að gera,“ segir Hjálmar. Hann segir að eðlilega vilji bílaleigurnar hafa verið hátt, en á sama tima sé mikil samkeppni í útleigu á bílum hér á landi. Það þýði ekki að tala um að ferðamenn skilji ekki nóg eftir hér á landi og svo fara að tala um að verð á þjónustu sé of hátt.

Hann segir ýmsar ástæður fyrir því að bílaleigubílarnir séu dýrari hér, til að mynda aðflutningsgjöld af bílum, flutningskostnað og skatta. Staðreyndin sé einfaldlega sú að framboð og eftirspurn ráði verðinu. Hrannar bendir á að afkoman hjá bílaleigum hafi ekki verið sérlega góð síðustu ár svo verðin séu sannarlega ekki of há.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.