Innlent

Aftur bæjarstjóri eftir 23 ára hlé

Freyr Bjarnason skrifar
Lárus Ástmar Hannesson afhendir Sturlu lyklavöldin að bæjarskrifstofunum í Stykkishólmi.
Lárus Ástmar Hannesson afhendir Sturlu lyklavöldin að bæjarskrifstofunum í Stykkishólmi. Mynd/Sumarliði
Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, tók við starfi bæjarstjóra í Stykkishólmi á nýjan leik á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í ráðhúsi Stykkishólms á mánudag. 23 ár eru liðin síðan Sturla gegndi embættinu síðast, eða árið 1991.

„Þetta leggst bara vel í mig. Þetta er fyrsti vinnudagurinn formlega. Ég er að setja mig inn í málin og fara yfir það sem liggur fyrir,“ segir Sturla. Aðspurður segir hann að mjög mikið hafi breyst í bænum síðan hann var síðast bæjarstjóri.

„Mestu breytingar voru kannski á meðan ég var samgönguráðherra og gat séð til þess að það yrðu sæmilegar samgöngur hingað,“ segir hann. „En það sem hefur auðvitað breyst er að hörpudiskurinn hætti að veiðast hérna, sem hafði mikil áhrif á atvinnulífið, á meðan ferðaþjónustan hefur vaxið. Fjölbrautaskóli Snæfellinga er núna starfræktur sem þýðir að unglingarnir fara ekki í burtu,“ segir hann.

„Eitt af stóru viðfangsefnum bæjarstjórnar er að íbúum hefur fækkað og ég vona að okkur takist að snúa þeirri þróun við. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að hlusta á forsætisráðherra tala á Austurvelli um nauðsyn þess að standa vörð um hinar dreifðu byggðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×