Innlent

Karlar vilja ekki tala um dauðann

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Bragi Skúlason segir að það sé mikill ávinningur fyrir maka og nánustu ættingja að ræða dauðann opinskátt, sorgin verði ekki jafn erfið og sár.
Bragi Skúlason segir að það sé mikill ávinningur fyrir maka og nánustu ættingja að ræða dauðann opinskátt, sorgin verði ekki jafn erfið og sár. Fréttablaðið/Anton
 Karlar vilja helst ekki ræða yfirvofandi dauða sinn, andstætt við konur, og dánartíðni ekkla er hærri en kvæntra manna í níu ár eftir andlát maka.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í doktorsritgerð séra Braga Skúlasonar, Samtal um dauða og sorg: Íslenskir karlar og ekklar. Ritgerðina ver hann við Háskóla Íslands í dag.

Rannsókn Braga tekur til 371 ekkils sem missti konu sína, á þriggja ára tímabili frá 1999 til 2001. Ekklarnir voru fæddir á árunum 1924 til 1969 og koma alls staðar að af landinu.



Þá ræddi Bragi við 195 einstaklinga af báðum kynjum sem voru í líknandi meðferð.

„Það er gríðarlegur munur á körlum og konum þegar kemur að því að ræða dauðann.

Þrjátíu prósent karla hafa frumkvæði að því að ræða yfirvofandi dauða sinn í viðtölum, hlutfallið er 80 prósent á meðal kvenna,“ segir Bragi.

Hann segir að auðvitað virði hann sem prestur og aðrir heilbrigðisstarfsmenn það ef fólk vill ekki ræða dauðann. Það sé hins vegar mikill ávinningur fyrir maka og nánustu ættingja að ræða dauðann opinskátt, sorgin verði ekki jafn erfið og sár.

Bragi segir að þegar kemur að samræðu séu þarfir karla aðrar en kvenna. „Karlar vilja hlífa sínum nánustu við að ræða dauðann og finna styrk sinn oft í einveru, andstætt við konur.“

Annað sem kemur á óvart er að samkvæmt rannsókn Braga er algengt að karlar telji að sambandi þeirra við látna eiginkonu hafi ekki lokið við andlát hennar.

Margt í lífi þeirra haldist óbreytt, þeir haldi áfram að búa á sama stað, mynd af eiginkonunni standi á náttborðinu og þeir tali til hennar kvölds og morgna.

„Þeir eru ekki að opna fyrir aðrar gáttir í aðrar áttir á meðan þetta er svona,“ segir Bragi.

Dánartíðni ekkla miðað við kvæntra karla á sama aldri og í sömu búsetu er tölfræðilega hærri.

„Eldri kenningar segja að það sé mest hætta á að makinn deyi einu til tveimur árum eftir andlát eiginkonu. Samkvæmt minni rannsókn er þetta ekki rétt, hættan var enn til staðar níu árum eftir að rannsókninni lauk.“

Af 371 ekkli sem rannsóknin tók til voru 20 sem voru komnir í annað samband á þeim sex til níu árum sem Bragi fylgdi þeim eftir.

„Menn hafa lengi talið að karlar færu strax í annað samband þegar þeir misstu maka sinn. Þannig var það fyrir hundrað árum en samkvæmt minni rannsókn er það ekki þannig í dag,“ segir Bragi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×