Innlent

Fjármagna framkvæmdir til að hindra gjaldtöku

Sveinn Arnarsson skrifar
Ferðamenn við Dettifoss.
Ferðamenn við Dettifoss. Fréttablaðið/Vilhelm
Hið opinbera hefur ákveðið að veita fjörutíu milljónir króna til gerðar göngustígs og nýs útsýnispalls við Dettifoss að vestanverðu. Þetta setur strik í áform landeigenda sem vilja taka gjald af ferðamönnum sem heimsækja svæðið, meðal annars til að fjármagna uppbyggingu göngustíga og útsýnispalla.

Fjármunirnir sem hið opinbera hefur nú veitt í þetta verkefni koma úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða og fara í að byggja 100 fermetra útsýnispall og 260 metra göngustíg.

Hjörleifur Finnsson, þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs, telur að með þessu verði fyrirhuguð gjaldtaka landeigenda ómöguleg.

„Útsýnispallurinn og göngustígurinn eru í landi þjóðgarðsins. Það verður erfitt að rukka fyrir göngustíg sem er að hluta til í ríkiseigu og að hluta til í einkalandi.“ segir Hjörleifur.

„Ef gjaldtökuhugmyndir landeigenda standast lög, sem ég efa, þá neyðumst við til að byggja nýjan göngustíg alfarið í okkar landi. Eðlilegast væri þó ef núverandi vegstæði yrði notað áfram. Þannig myndu útsýnispallurinn og bílastæðið tengjast best,“ segir hann.

Á heimasíðu Landeigendafélags Reykjahlíðar, sem nær frá Námaskarði að Dettifossi, eru rökin fyrir gjaldtöku sögð að vegna ágangs ferðamanna þurfi að vernda náttúruna og byggja upp göngustíga og útsýnispalla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×