Innlent

Hluti barna látinn borga heim með sér

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Margrét Einarsdóttir kemst að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni að togsteita ríki milli efnahagslegrar og líkamlegrar velferðar ungmenna þegar kemur að atvinnuþátttöku. Vísir/Danni
Margrét Einarsdóttir kemst að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni að togsteita ríki milli efnahagslegrar og líkamlegrar velferðar ungmenna þegar kemur að atvinnuþátttöku. Vísir/Danni
„Peningurinn, var svarið sem ég fékk þegar ég spurði börn á aldrinum 13 til 17 ára hvers vegna þau væru að vinna. Þau tala hins vegar ekki um að það sé gaman í vinnu,“ segir Margrét Einarsdóttir, sem í dag ver doktorsritgerð sína, Launavinna barna og unglinga, við Háskóla Íslands.

Ritgerðin er unnin úr svörum um 1.000 barna sem var safnað á árunum 2007 til 2008.

Í ritgerðinni kemst Margrét meðal annars að þeirri niðurstöðu að ákveðin togstreita ríki á milli efnahagslegrar og líkamlegrar velferðar ungmennanna þegar kemur að atvinnuþátttöku þeirra.

Ungmennin leggja áherslu á að þau vilji vinna sér inn peninga, tekjurnar færi þau í átt til sjálfstæðis og ábyrgðar og í sumum tilfellum þurfi þau á tekjunum að halda til að standa straum af eigin framfærslu.

Margrét segir að það séu nokkuð sterk tengsl á milli menntunar foreldra og þess hversu gömul börnin eru þegar þau fara að vinna.

„Börn sem eiga háskólamenntaða foreldra eru eldri þegar þau fara að vinna á sumrin og þau vinna styttri vinnuviku. Þau eru jafnframt ólíklegri til að vinna með skóla,“ segir hún.

Margrét segir að börn og unglingar á þessum aldri vinni af fjárhagslegum ástæðum, það geti svo tengst öðrum þáttum, til dæmis að þau vilji bera ábyrgð á sjálfum sér að hluta. Eldri börnin greiði oft og tíðum sjálf innritunargjöld í framhaldsskóla og borgi fyrir eigin bækur.

Sum barnanna keyptu mat til heimilisins fyrir það fé sem þau unnu sér inn.

„Það bendir til þess að sumar fjölskyldur þurfi á launum barnanna að halda til að halda sér uppi,“ segir Margrét.

Þá segir hún að á milli eitt og tvö prósent barnanna, eða 20 til 30, hafi sagt að þau þyrftu að borga með sér heim.

Annars segir Margrét að sér sýnist að frá því fyrir aldamót og fram að hruni hafi dregið úr vinnu barna og unglinga á sumrin. Hins vegar hafi vinna barna og unglinga með skóla aukist.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×