Innlent

Fer ekki að ákvæðum alþjóðlegra sáttmála

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Anna Kristinsdóttir
Anna Kristinsdóttir
„Við segjum ekki að við ætlum að taka þessa lóð til baka af því okkur er illa við múslima. Það er bæði galið og sérkennilegt að oddvitar pólitískra framboða séu að setja slík mál á oddinn,“ segir Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar.



Anna segir Íslendinga aðila að fjölda alþjóðlegra sáttmála um mannréttindamál sem banni mismunun. Í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sé mismunun einnig bönnuð.

Því sé sérkennilegt ef einstaka stjórnmálamenn telji sig yfir það hafna að fara að ákvæðum alþjóðasáttmála og stjórnarskrár.

Anna bendir á að European Commission for Racism and Intolerance (ECRI) hafi nokkrum sinnum gert athugasemdir við tregðu borgaryfirvalda til að úthluta múslimum lóð undir mosku. Tekið hafi 14 ár fyrir múslima að fá lóðina. Hún verði ekki tekin af þeim aftur.

Ummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, um að afturkalla ætti úthlutun lóðar fyrir mosku í Sogamýri í Reykjavík, hafa vakið hörð viðbrögð.

„Auðvitað fylgist ECRI stöðugt með því sem gerist hér. Við tökum allar athugasemdir frá þeim mjög alvarlega,“ segir Anna og efast ekki um að ECRI hafi fregnað af ummælum Sveinbjargar.

Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, hefur varpað þeirri spurningu til Sveinbjargar Birnu hvort hún vilji að Reykjavík fái þann dóm frá Evrópuráðinu, þar sem Ísland er meðal stofnaðila, að Reykjavík mismuni fólki á grundvelli trúarbragða og sendi þau skilaboð til umheimsins að múslimar séu ekki velkomnir á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×