Innlent

Segir forstjóra hafa sagt ósatt

Freyr Bjarnason skrifar
Hvetur fólk til að skoða viðbrögð Steingríms J. Sigfússonar og Gunnars Andersen við gagnrýni hans.
Hvetur fólk til að skoða viðbrögð Steingríms J. Sigfússonar og Gunnars Andersen við gagnrýni hans. Fréttablaðið/Daníel
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hélt því margoft fram á síðasta kjörtímabili þegar hann var í stjórnarandstöðu að lög um eiginfjárhlutfall hefðu verið brotin á meðan sparisjóðirnir voru á forræði ríkisins, án þess að Fjármálaeftirlitið hefði af því afskipti.

Gunnar Andersen, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, svaraði því til að lögin hefðu ekki verið brotin. Í rannsóknarskýrslu Alþingis um sparisjóðina kemur annað upp úr dúrnum. Segir Guðlaugur Þór „staðfest“ að hann hafi haft rétt fyrir sér. „Það getur enginn haldið því fram að ég hafi ekki sinnt skyldu minni í stjórnarandstöðu því hvað eftir annað benti ég á þetta, skrifaði um þetta greinar, tók þetta upp í þinginu og fékk nú bágt fyrir,“ segir hann.

„Menn hljóta að vilja fá skýringu á því hvernig þetta má vera, þessi gríðarlegi kostnaður almennings vegna þessara aðgerða og aðgerðaleysis fyrrverandi ríkisstjórnar í málefnum SpKef og Byrs,“ segir Guðlaugur.

Hvort Gunnar hafi sagt ósatt varðandi eiginfjárhlutfallið segir þingmaðurinn: „Það er augljóst. Ég hvet menn til að skoða viðbrögð þáverandi fjármálaráðherra [Steingríms J. Sigfússonar] við gagnrýni minni sem og fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×