Tónlist

Áhorfendur ákveða næsta lag

Gunnar Leó Pálsson skrifar
SamSam skemmtir á Café Rosenberg í kvöld.
SamSam skemmtir á Café Rosenberg í kvöld. Mynd/Hanna Gestsdótti
„Við erum búnar að vera í smá pásu út af Eurovision og höfum saknað strákanna mikið. Það verður gaman að syngja lögin okkar aftur,“ segir söngkonan og fyrrverandi knattspyrnukonan Greta Mjöll Samúelsdóttir, en hún kemur fram ásamt systur sinni, Hófí Samúelsdóttur, og hljómsveitinni þeirra, SamSam, á Café Rosenberg í kvöld.

Með þeim leika Guðmundur Reynir Gunnarsson á píanó, betur þekktur sem Mummi, Marínó Geir Lillendahl á trommur, Fannar Freyr Magnússon á gítar og Sigurgeir Skafti Flosason á bassa.

SamSam ætlar að leika efni af óútkominni plötu en fyrsta plata sveitarinnar kemur út í haust. Áður hefur bandið gefið út lögin House og Awesome. „Við ætlum að láta áhorfendur á tónleikunum ákveða hvaða lag á að fara í upptökur næst, því við erum svo óákveðnar sjálfar,“ segir Greta Mjöll létt í lundu.

Hún söng lagið Eftir eitt lag í Söngvakeppni Sjónvarpsins fyrir skömmu. „Að sjálfsögðu ætlum við að taka slagarann og júrópæjurnar Ásta Björg og Rakel slást í hópinn,“ segir Greta Mjöll.

Þær Ásta Björg Björgvinsdóttir og Rakel Pálsdóttir ætla einnig að hita upp með nokkrum frumsömdum lögum og þá ætla Lúxordrengirnir Arnar Jónsson og Edgar Smári Atlason að syngja nokkur lög. Tónleikarnir hefjast klukkan 20.30 og er miðaverð 1.500 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×