Lífið

56 ára og leikur Gunnar Nelson

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Karl bregður sér í hlutverk bardagakappans.
Karl bregður sér í hlutverk bardagakappans. Mynd/úr einkasafni
„Þetta er orðið svo langur ferill hjá Spaugstofunni. Þegar við byrjuðum vorum við alltaf að leika fólk sem var eldra en við. Nú er það búið að snúast við og við þurfum að leika yngra fólk. Það er orðið partur af okkar daglega veruleika að leika niður fyrir okkur í aldri,“ segir Spaugstofumeðlimurinn Karl Ágúst Úlfsson. Hann túlkar bardagakappann Gunnar Nelson í næsta þætti af Spaugstofunni sem sýndur verður á laugardagskvöldið. Talsverður aldursmunur er á leikaranum og Gunnari; Karl er 56 ára en sá síðarnefndi 25 ára. Karl lætur það ekki á sig fá.

„Ég er ungur í anda.“

Leikarinn vill lítið segja um atriðið sjálft.

„Við reynum að vera spegill á þjóðlífið þannig að við fjöllum meira um þjóðina heldur en Gunnar sjálfan eða bardagalistina,“ segir Karl, sem horfði ekki á það þegar Gunnar bar sigur úr býtum á móti Rússanum Omari Akhmedov í London um síðustu helgi.

„Þetta er ekki eitt af mínum áhugamálum. Þau eru nógu mörgt samt. En Gunnar er maður sem er að vinna afrek á því sviði sem hann hefur valið sér og það er alltaf ánægjulegt þegar fólk nær góðum árangri.“

Þrír þættir eru eftir af þessari þáttaröð af Spaugstofunni og síðan tekur við frí hjá köppunum, allavega fram yfir sumarið.

„Svo vitum við ekkert um framhaldið frekar en endranær. Við höfum lifað í þrjátíu ára óvissu og vitum aldrei hvað gerist næst. Við tökum því sem að höndum ber.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×