Innlent

Fjórum sinnum fleiri karlar í ófrjósemisaðgerðir

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Fjórum sinnum fleiri karlar fóru í ófrjósemisaðgerð en konur á síðasta ári.
Fjórum sinnum fleiri karlar fóru í ófrjósemisaðgerð en konur á síðasta ári. Vísir/Getty
Karlar eru ráðandi í stjórnun fjölmiðla og eru íþróttafréttir nær eingöngu fluttar af körlum enda hallaði verulega á umfjöllun um konur þegar umfjöllun fjölmiðla um Ólympíuleikana var skoðuð í síðasta mánuði. Konur eru þó fleiri þegar horft er til ritstjóra viku- og tímarita.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í Kynlegum tölum sem gefnar eru út í fjórða sinn á vegum mannréttindaskrifstofu og mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti.

Í bæklingnum er forvitnileg tölfræði sem varpar ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í borginni og á landinu.

Dæmi um slíka tölfræði er að stærsti hluti viðtakenda fjárhagsaðstoðar í Reykjavíkurborg eru einhleypir, barnlausir karlar en næststærsti hópurinn er einstæðar mæður en þær eru þó meira en helmingi færri. Fast á hæla einstæðu mæðranna koma einhleypar konur og fæstir koma úr hópi einstæðra feðra sem þiggja fjárhagsaðstoð.

Einnig kemur fram að meira en helmingi fleiri karlmenn en konur fóru í áfengismeðferð hjá SÁÁ árið 2013 og að konur sem búa við örorku vegna stoðkerfissjúkdóma eru næstum þrisvar sinnum fleiri en karlar.

Ef litið er til ófrjósemisaðgerða kemur í ljós að á síðasta ári fóru fjórum sinnum fleiri karlar í ófrjósemisaðgerð en konur, eða 483 karlar á móti 123 konum. Árið 1982 var sagan önnur en þá fór 581 kona í ófrjósemisaðgerð en einungis 37 karlar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×