Lífið

Eivør syngur með Sinfóníu-hljómsveit Norðurlands

Færeyska söngkonan Eivør Pálsdóttir gengur á laugardaginn ásamt hljómsveit sinni til liðs við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Hljómsveitarstjóri er Guðmundur Óli Gunnarsson.

Flutt verða eldri og nýrri lög Eivarar sem endurspegla líf hennar, æskuna, ástina og sorgina. Lögin eru einlæg og þó skynja megi söknuð í þeim eru þau einnig full af von og sátt.

Tróndur Bogason, eiginmaður Eivarar, útsetti lögin fyrir þetta tilefni en hann á farsælan feril að baki sem tónskáld og leikur einnig á hljómborð í hljómsveit Eivarar. Aðrir í hljómsveitinni eru þeir Høgni Lisberg trommuleikari, Magnus Johannesen píanóleikari og Mikael Blak bassaleikari. Uppselt er á tónleikana.

Eivør bjó á Íslandi í fjögur ár og mörg laga hennar eru undir sterkum áhrifum þaðan.

Eivør fagnar mjög samstarfi sínu við SN: „Ég hlakka mikið til. Það fylgja því sérstakir töfrar að flytja tónlistina sína með sinfóníuhljómsveit. Ég heimsæki Ísland reglulega og þar líður mér alltaf eins og heima hjá mér. Mér þykir sérstaklega vænt um Akureyri og gleðst yfir því að fá tækifæri til að koma fram í Hofi með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.