Innlent

Áfengispillur seljast illa

Freyr Bjarnason skrifar
Áfengislyfið Selincro hefur selst lítið sem ekkert hér á landi.
Áfengislyfið Selincro hefur selst lítið sem ekkert hér á landi. Fréttablaðið/Valli
Aðeins fjórtán pakkningar hafa selst af áfengislyfinu Selincro síðan það fór í sölu hér á landi í júní á vegum danska lyfjafyrirtækisins Lundbeck.

Selincro telst vera fyrsta lyfið sem dregur úr áfengislöngun sem er viðurkennt af heilbrigðisyfirvöldum. Önnur lyf eins og Antabus hafa þann tilgang að stöðva drykkju alfarið.

Aðalsteinn Loftsson, lyfjafræðingur, lyfsali og formaður Lyfjafræðingafélags Íslands, segist ekki hafa búist við því að Selincro myndi seljast neitt þegar það kom á markað. Í raun eru pakkarnir fjórtán því fleiri en hann bjóst við að myndu seljast.

„Við höfum fengið lyfseðla fyrir því [Selincro] sem hafa ekki verið sóttir. Það er vel þekkt vandamál því það er góður slatti af lyfseðlum sem eru aldrei leystir út. Þetta er líka töluvert dýrara en Antabus en þetta er sennilega betra lyf,“ segir Aðalsteinn. „Ég hélt að þetta myndi ekkert seljast og var voðalega hissa þegar ég fékk lyfseðil fyrir þessu.“

Fjórtán töflur af Selincro kosta um 12.800 krónur en fimmtíu stykki af Antabus kosta um fimm þúsund krónur.

Aðspurður segir Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, að ekki hafi verið talin ástæða til að nota áfengislyf eins og Selincro á þeirra sjúklinga. Hann segir að á Vogi hafi m.a. verið gerð „tugmilljóna“ rannsókn á virkni annars áfengislyfs, Naltrexone, sem hafi ekki skilað árangri.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.