Innlent

Hvatt til banns við lausagöngu katta

Bjarki Ármannsson skrifar
Af hverju eru kettir ekki í bandi eins og hundar, spyr Önundur.
Af hverju eru kettir ekki í bandi eins og hundar, spyr Önundur. Vísir/Stefán
Önundur Jónsson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn á Ísafirði, hvetur nýjan meirihluta í bæjarstjórn til að koma á banni við lausagöngu katta. Í pistli sínum á vefnum BB.is segist hann hafa fylgst með þrastarpari koma sér fyrir í hreiðri í garðinum sínum undanfarið en að köttur í hverfinu hafi fyrir stuttu drepið og étið egg þeirra fjögur.

Hann skrifar um ketti:

Refurinn og minkurinn eru lausagöngudýr og eru réttdræpir í landinu, en kötturinn er friðaður enda heimilisdýr. Eðli hans er að veiða, þó hann sé mettur af kattarmat að heiman frá sér. En af hverju eru kettir ekki í bandi eins og hundar bæjarins? Er ekki tími kominn til að efla smáfuglalífið hjá okkur með því að banna lausagöngu kattarins? Kötturinn er ábyggilega hið skemmtilegasta dýr heimafyrir, en laus köttur er skaðvaldur hinn mesti. Ég hvet nýjan meirihluta í bæjarstjórn til að koma á banni við lausagöngu kattarins. 

Ekki er að sjá annað af ummælakerfi BB.is en að fjöldi bæjarbúa sé sammála Öndundi. Einn lesandi segist vilja banna lausagöngu hunda og katta og annar segir að það myndi skipta sköpum ef kettir væru látnir ganga um með bjöllu um hálsinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×