„Ég er afskaplega ánægður með að við skyldum ná að afstýra verkfalli með öllum þeim óþægindum sem því hefði fylgt,“ sagði Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Kjarasamningar bæjarins við Starfsmannafélag Kópavogs (SFK) voru undirritaðir klukkan hálf sjö í gærmorgun, hálftíma áður en verkfall átti að hefjast.
Ármann telur niðurstöðuna farsæla fyrir alla og segist þakklátur aðilum beggja vegna borðs fyrir að ná að klára málið. Jófríður Hanna Sigfúsdóttir, formaður SFK, segir samninginn einkennast af miklum málamiðlunum en félagið setti fram nokkur skilyrði sem það taldi sig ekki geta vikið frá. Þar á meðal var tryggt að svokölluð háskólabókun félli ekki úr samningum.
„Hefði háskólabókunin fallið algjörlega út, eins og bæjaryfirvöld vildu, þá væri í raun verið að hindra viðkomandi starfsmenn í að vera í Starfsmannafélagi Kópavogs, þar sem þeir hafa verið í ár og áratugi,“ sagði Jófríður. Hún telur að með heildarendurskoðun á starfsmati verði hún óþörf. „Við bindum vonir við að í næsta kjarasamningi verði launataflan leiðrétt enn meira. Þá mun hún ná að halda utan um háskólamenntaða aðila, þá þurfum við enga háskólabókun.“
Ármann bæjarstjóri segir að fljótlega verði farið í þessa heildarendurskoðun. „Það er stórt verkefni og yfirgripsmikið.“
