Innlent

Tryggvi Þór og Hjálmar Gíslason takast á um skuldaniðurfellingar

Samúel Karl Ólason skrifar
Hjálmar Gíslason og Tryggvi Þór Herbertsson.
Hjálmar Gíslason og Tryggvi Þór Herbertsson. Vísir/Valgarður/Stefán
Vísir birti í dag frétt þar sem fjallað er um afstöðu nokkurra sem lýst hafa yfir því að þeir hafi sótt um og fengið niðurfærslu húsnæðisskulda sinna, en jafnframt lýst yfir vanþóknun sinni á þessari aðgerð ríkisstjórnarinnar. Meðal þeirra sem nefndir eru í því sambandi eru Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi og Hjálmar Gíslason fjárfestir.

Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, annaðist útfærslu ríkisstjórnarinnar á hinni svokölluðu leiðréttingu, eða niðurfærslu skulda hluta þeirra sem skulda húsnæðislán. Metið er að 90 þúsund manns fái niðurfellingu sem mun kosta ríkissjóð um 80 milljarða. Óhætt er að segja að þessi aðgerð sé umdeild. Tryggvi lýsti því yfir nú í kvöld að honum mislíki mjög sú afstaða að sækja um niðurfærslu skulda sinna, fá en gagnrýna jafnframt þessa aðgerð. Hann skrifar harðorðan pistil á Facebooksíðu sína af þessu tilefni, þar sem hann hvetur slíka til að gefa frá sér þær ávinninginn:

„Mér er misboðið. Hér keppast m.a. efnamenn um að lýsa fyrirlitningunni á skuldalækkunarleiðinni. Segjast ætla að þiggja með „óbragð í munni“ en gefa það síðan frá sé. Þannig lýsir t.d. einn þeirra, sá sem græddi 500.000.000,- á dögunum, yfir því að hann ætli að gefa tæplega 4 milljóna leiðréttingu til SOS barnaþorpa. Hvað ætli þeim sem lítið eða ekkert fá skuli finnast um slíkt? Þetta er vanvirðing við fólk á hæsta stigi. Að þiggja skattfé, og lækka þannig það sem aðrir fá og bera ekki meiri virðingu fyrir gjörningnum en svo að gefa hann frá sér, hemff. Við þetta fólk vill ég segja: sýnið manndóm og samþykkið ekki. Það er manndómur!“

Fjölmargir eru til að taka undir orð Tryggva Þórs og þegar þetta er skrifað hafa rúmlega tvö hundruð ýtt á hnapp til að lýsa yfir velþóknun sinni á orðum Tryggva Þórs.

Hjálmar Gíslason lætur Tryggva Þór ekki eiga neitt inni hjá sér og svarar af hörku. Hann segir augljóst að Tryggvi Þór beini orðum sínum að sér og tekur fram ða hann hafi frá upphafi verið harður gagnrýnismaður á þessar aðgerðir, honum finnst þetta vitlaus forgangsröðun og illa farið með skattfé. Og Hjálmar heldur áfram:

„Það liggur algerlega í augum uppi að stór hluti af þessu fé hefði verið betur notaður í annað. Alltof stór hluti af þessari millifærslu fer til mín og annarra sem höfum það drullugott. Ég hefði viljað sjá peninginn notaðan í annað, og var búinn að lýsa því yfir löngu áður en salan á fyrirtækinu varð einu sinni hugmynd (ekki að ég skilji hvernig hún tengist þessu). Á sama tíma er skorið niður og talað um að það "vanti pening" í mikilvæg mál, t.d. þróunaraðstoð. Ég tek þess vegna hér með að mér að ráðstafa þessum peningum með hætti sem mér finnst gáfulegri en það sem ríkissjóður virðist ráða við.

Ef Tryggvi hefur áhyggjur af þeim sem "lítið eða ekkert fá" úr þessum aðgerðum, þá erum við tveir um það. Ég get á stuttum fundi farið yfir það hvernig ég held að hægt væri að ráðstafa þessu fé þannig að það nýtist þeim hópum betur.“


Tengdar fréttir

Þiggja féð með óbragð í munni

Ýmsir sem nú fá hluta húsnæðisskulda sinna niðurfellda eru hreinlega með móral – því þeim finnst aðgerðin ranglát.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.