Innlent

Framkvæmdastjóri fjarlægði undirskriftalista starfsmanna

Sveinn Arnarsson skrifar
Dvalarheimilið Hlíð Starfsfólk Hlíðar átelur stjórn öldrunarheimilisins.
Dvalarheimilið Hlíð Starfsfólk Hlíðar átelur stjórn öldrunarheimilisins. mynd/heida.is
Starfsmenn öldrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri eru afar óánægðir með yfirstjórn heimilisins og hafa ítrekað reynt að benda á atriði sem þarfnast lagfæringar án árangurs. Til að mynda var undirskriftalisti sem starfsmenn stofnuðu til, til þess að þrýsta á umbætur á vaktakerfi vinnustaðarins, fjarlægður af framkvæmdastjóra heimilisins þegar hann varð hans var á kaffistofu einnar deildarinnar.

Starfsmenn eru orðnir langþreyttir á úrræðaleysi yfirstjórnar og vilja að vinna þeirra sé metin að verðleikum. Starfsmenn sem blaðamaður hefur haft samband við vildu ekki koma fram undir nafni, þar sem það gæti haft áhrif á stöðu þeirra innan heimilisins.

Að sögn starfsmanna hefur þeim verið sagt að þeir geti átt von á uppsögn ef reynt er að krefjast úrbóta eða auka faglega starfsemi í húsinu. Þetta séu einhvers konar varnarviðbrögð stjórnenda, að ef starfsmönnum mislíkar aðstæður þá ættu þeir að hugsa sinn gang á vinnustaðnum.

Þeir starfsmenn sem blaðamaður hafði samband við lýsa ástandinu sem grafalvarlegu og segja að það sé farið að bitna á íbúum heimilisins. Ef ekki verði gerð bragarbót á störfum heimilisins gæti alveg farið svo að hópuppsögnum verði beitt.

Að sögn viðmælenda blaðsins finnst þeim stjórnendur ekki sýna vinnu þeirra virðingu, og stjórnendur deildanna sýna þetta sama viðhorf sem gerir það að verkum að fólk sé ekki ánægt í starfi. Stefna öldrunarheimilisins snúi að því að veita íbúum ánægjulegt ævikvöld og það sé erfitt að veita þeim þá þjónustu þegar starfsfólk er óánægt.

Halldór Sigurður Guðmundsson er framkvæmdastjóri öldrunarheimila Akureyrar.

„Það var haldinn fundur með starfsmönnum eftir að þessi undirskriftalisti var fjarlægður. Sú skýring, sem gefin var starfsmönnum sem stóðu fyrir þessum lista, var einföld. Á þessum tíma var starfandi á vegum Akureyrarbæjar nefnd um hvernig mætti bæta ímynd og jákvæða umfjöllun um öldrunarheimilin. Þessi undirskriftalisti harmoneraði ekki með því. Ég gerði athugasemd við það að það væri verið að standa að undirskriftasöfnun á heimili aldraðs fólks,“ segir Halldór Sigurður.

Hvað óánægju starfsfólks varðar telur Halldór að um sé að ræða minnihlutahóp sem sé óánægður.

„Ég held að það sé einfalt að segja að það sé ekki rétt upplifun, á árinu 2013 gerðum við þrjár kannanir á viðhorfi starfsmanna til líðanar í starfi og engar vísbendingar voru um þetta í þeim, heldur þvert á móti. Mjög stór hluti er ánægður í starfi,“ segir Halldór Sigurður Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×