Innlent

"Áður en ég vissi dundu á mér höggin frá honum"

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Árásin átti sér stað fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur í gærkvöldi. Kristófer Már óskar eftir vitnum af atburðarásinni.
Árásin átti sér stað fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur í gærkvöldi. Kristófer Már óskar eftir vitnum af atburðarásinni.
„Það er fátt annað í stöðunni en að jafna sig bara á þessu. Þetta var gríðarlega mikið sjokk,“ segir Kristófer Már Maronsson í samtali við Vísi en Kristófer varð fyrir fólskulegri líkamsárás í miðborg Reykjavíkur skömmu fyrir klukkan hálf sjö í gærkvöldi.

Kristófer lýsti atburðarásinni í Facebook-færslu sem hann birti skömmu fyrir miðnætti og hefur fengið töluverða dreifingu. Í færslunni segir hann frá því þegar hann var staddur í strætóskýli fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur á leið heim úr vinnu í gærkvöld. Því næst vatt ungur maður sér upp að honum og spurði Kristófer hvort hann ætti handa honum strætómiða.

Þegar Kristófer neitaði því, sagðist einungis eiga strætókort og setti heyrnartólin aftur í eyrun brást betlarinn ókvæða við. „Einhverra hluta vegna fór það frekar illa í hann því áður en ég vissi dundu á mér höggin frá honum og það var ekki fyrr en ég kom hendinni fyrir og öskraði af lífs og sálarkröftum á hjálp sem að hann fór að bakka út,“ lýsir Kristófer í færslunni og segir að því næst hafi maðurinn sagt honum að „fokka sér“ og labbað burt.

Kristófer hafi í kjölfar árásarinnar legið óvígur eftir;  með blóðugt auga og mölbrotin gleraugu við hliðina á sér. Hann hafi varla komið upp orði af hræðslu ásamt því að hægri þumalfingurinn Kristófers sé mikið laskaður og óhreyfanlegur með öllu. Kristófer Már lýsir því hvernig þeir sem að honum komu, blóðugum  og vönkuðum, létu sér fátt um finnast.

„Það var þó maður skammt frá á hjóli sem hafði greinilega stoppað til þess að horfa á atburðinn og ég kallaði eins og ég gat á þennan mann. Maðurinn horfði í áttina á mér, snéri sér við og hjólaði í burtu eins og ekkert hafði gerst. Þá næst komu tvær konur labbandi framhjá og horfðu á mig liggja í strætóskýlinu og litu mig hornauga í stað þess að spyrja hvort allt væri í lagi.“

Kristófer hafi þó náð að hringja í Neyðarlínuna sem sendi sjúkraflutningamenn og lögreglu á vettvang. „Á meðan ég beið eftir þeim hélt áfram að blæða úr skurðinum hjá auganu og tveir hópar með fjórum kvenmönnum hvor löbbuðu framhjá og sáu mig sitjandi á bekknum að reyna að þurrka blóð af auganu mínu, afskiptalaust löbbuðu þær framhjá,“ segir Kristófer.

Þegar aðstoðin barst loks segist hann varla hafa geta stunið upp orði sökum áfallsins sem hann var í kjölfar árásarinnar. Kristófer furðar sig á viðmótinu sem hann mætti frá gangandi vegfarendum. Hann hafi fengið á tilfinninguna að sjónarvottar hafi talið hann útigangsmann sem ekki ætti að skipta sér af.

„Er samfélagið í alvöru orðið þannig í dag að blóðugur maður á almannafæri er ekki þess virði að athuga hvort sé í lagi með?“ spyr Kristófer sig í færslunni.

Kristófer segist ekki hafa séð nógu vel til árásarmannsins. „Ég held að hann hafi verið krúnurakaður en ég get ekki verið viss. Það eina sem ég veit er að hann var með Sprite-flösku en það eru varla haldbærar upplýsingar.“

Hann biðlar til alla þeirra sem kunna að hafa séð til mannsins að gera lögreglunni viðvart og beinir hann orðum sínum sérstaklega að manninum á hjólinu. „Hann er á er sá eini sem gæti hafa séð gerandann, enda man ég lítið eftir honum þar sem að hræðslan og áfall tóku öll völd, ásamt því að ég gat ekki haft blóðugt augað opið fyrr en hann var kominn í burtu.“

Eftir að hann var útskrifaður af slysadeild fór Kristófer aftur á vettvang árásarinnar og tók hann eftir því að þrjár öryggismyndavélar eru á svæðinu. Hann veit í hvaða átt árásarmaðurnn labbaði og vonast hann til þess að geta nálgast upptökur úr myndavélunum í dag. Hann ætli þó fyrst að þiggja áfallahjálpina sem honum var boðin í gærkvöldi.

Hann vonar að þessi raun hans geti verkað sem lexía fyrir alla þá sem kunna að koma að blóðugum manni á almannafæri í framtíðinni.  Að gangandi vegfarendur nemi frekar staðir og bjóði fram aðstoð sína í stað þess að labba áfram í skeytingarleysi sínu.

„Hugsið nú um ef að þetta væri vinur eða fjölskyldumeðlimur ykkar sem lenti í þessari tilviljanakenndu árás. Hvað á ég að segja við litlu systkini mín á morgun þegar þau sjá glóðurauga og sauma yfir auganu, að ókunnugur maður hafi lamið stóra bróðir þeirra af ástæðulausu? Ég held nú síður,“ segir Kristófer að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×