Innlent

Árásin við Ráðhúsið: Eitt vitni hefur stigið fram

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kristófer Már Maronsson varð fyrir líkamsárás á sunnudag.
Kristófer Már Maronsson varð fyrir líkamsárás á sunnudag.
„Ég fékk símtal frá einni konu sem varð vitni að árásinni. Mér finnst það algjörlega frábært og það léttir mikið á mér að fá að vita meira um manninn sem réðst á mig,“ segir Kristófer Már Maronsson, sem varð fyrir líkamsárás við Ráðhús Reykjavíkur á sunnudagskvöld.

Vísir fjallaði um málið í morgun og hefur það fengið mikla athygli. Kristófer sagði frá því að enginn hafi gripið inn í; öll vitnin hafi gengið í burtu. Kristófer gagnrýndi fólkið sem sá árásina fyrir skeytingarleysi.

Konan sem hafði samband við Kristófer gat lýst árásarmanninum. „Hún sá ekki framan í hann, en gat lýst því hvernig hann var klæddur. Hún sagði mér að hún hafi hringt á lögregluna þegar hún sá manninn ráðast á mig. Ég er henni afar þakklátur. Mér þykir mjög vænt um að hún hafi hringt í mig,“ útskýrir hann og bætir við að konan hafi beðist afsökunar á því að hafa ekki komið honum til hjálpar, hún gekk í burtu ásamt annari konu sem hún var samferða. „Þegar þær sjá mig, þá var sat ég í áfalli og var alveg stjarfur. Þær héldu að það væri bara allt orðið rólegt og ég þyrfti ekki hjálp. Eins og ég segi, ég er henni þakklátur að hafa hringt."

Spurði hvort hann ætti strætómiða

Kristófer lýsti atburðarásinni í Facebook-færslu sem hann birti skömmu fyrir miðnætti og hefur fengið töluverða dreifingu. Í færslunni segir hann frá því þegar hann var staddur í strætóskýli fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur á leið heim úr vinnu í gærkvöld. Því næst vatt ungur maður sér upp að honum og spurði Kristófer hvort hann ætti handa honum strætómiða.

Þegar Kristófer neitaði því, sagðist einungis eiga strætókort og setti heyrnartólin aftur í eyrun brást betlarinn ókvæða við. „Einhverra hluta vegna fór það frekar illa í hann því áður en ég vissi dundu á mér höggin frá honum og það var ekki fyrr en ég kom hendinni fyrir og öskraði af lífs og sálarkröftum á hjálp sem að hann fór að bakka út,“ lýsir Kristófer í færslunni og segir að því næst hafi maðurinn sagt honum að „fokka sér“ og labbað burt.

Kristófer hafi í kjölfar árásarinnar legið óvígur eftir;  með blóðugt auga og mölbrotin gleraugu við hliðina á sér. Hann hafi varla komið upp orði af hræðslu ásamt því að hægri þumalfingurinn Kristófers sé mikið laskaður og óhreyfanlegur með öllu. Kristófer Már lýsir því hvernig þeir sem að honum komu, blóðugum  og vönkuðum, létu sér fátt um finnast.

Ætlar að kæra

Kristófer hyggst kæra atburðinn. „Já, næsta skref er að leggja fram kæru. Ég geri það eftir vinnu í dag,“ segir hann.

Kristófer vonast til þess að enn fleiri stígi fram og gefi lýsingu á árásarmanninum. Í viðtali við Vísi í morgun lýsti Kristófer því hvernig hann kallaði á mann á hjóli sem var þarna skammt frá. „Það var þó maður skammt frá á hjóli sem hafði greinilega stoppað til þess að horfa á atburðinn og ég kallaði eins og ég gat á þennan mann. Maðurinn horfði í áttina á mér, snéri sér við og hjólaði í burtu eins og ekkert hafði gerst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×