Innlent

Góðverk eldri manns: „Það er frábært að vita af svona fólki í nágrenninu“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá manninn að störfum í morgun.
Hér má sjá manninn að störfum í morgun. Mynd/BHM
Eldri maður í Hafnarfirði ákvað að létta undir með samborgurum sínum í morgun og mokaði snjó í kringum inngang á leikskólann Brekkuhvamm í Hafnarfirði. Þetta gerði maðurinn, að því er virðist, óumbeðinn.

Bragi Magnússon, íbúi í hverfinu, hreifst mjög af þessu framtaki og skrifaði um það á Facebook-síðu sína.

Þessi maður, eflaust í kringum áttrætt, var mættur í morgun fyrir utan leikskólann til að moka snjó eftir að hafa klárað sína eigin stétt í næsta húsi. Hægt og rólega kláraði hann verkið án þess að nokkur hafi beðið hann um það. Hann einfaldar þar með daginn hjá fullt af fólki sem kemur með og sækir svo börnin sín ómeðvitað um þetta góðverk,“ skrifaði hann og bætti við:

Eflaust vinnur hann í gegnum liðaverki og annað en kemur ekki að sök. Ég tek hatt minn ofan fyrir þessum manni og skora á okkur öll að taka hann okkur til fyrirmyndar. Ég að minnsta kosti lít upp til þessa manns og ætla mér að gera betur sjálfur.

Í snörpu samtali við blaðamann Vísis sagðist Bragi hafa horft á manninn moka snjó í morgun. Eins og Bragi sagði á Facebook-síðu sinni, var maðurinn að moka stétt fyrir utan sitt eigið heimili. „Svo rölti hann í makindum yfir götuna og byrjaði að moka fyrir utan leikskólann. Síðan komu börnin að honum, hæstánægð og spjölluðu við hann.“

Bragi er manninum þakklátur: „Mig langar eiginlega bara að gefa honum blómvönd. Það er alveg frábært að vita af svona fólki í nágrenninu.“

Hér er önnur mynd af manninum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×