Innlent

Kvalir hvalanna á enda: Stærsta hvalasýning í Evrópu opnar á nýju ári

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Það er alltaf áfall þegar hlutirnir ganga ekki eins og maður gerir ráð fyrir. En sem betur fer slasaðist enginn og ekkert skemmdist sem ekki er hægt að laga,“ segir Stella.
"Það er alltaf áfall þegar hlutirnir ganga ekki eins og maður gerir ráð fyrir. En sem betur fer slasaðist enginn og ekkert skemmdist sem ekki er hægt að laga,“ segir Stella.
Stærsta hvalasýning sinnar tegundar í Evrópu, Whales of Iceland, verður opnuð í húsnæði við Fiskislóð á Granda í Reykjavík á næstu vikum. Opna átti sýninguna í september en eldur kom upp í sýningarrými húsnæðisins sem varð til þess að tafir urðu á opnuninni. Stella Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Whales of Iceland, segir undirbúning ganga vel og finnur fyrir mikilli eftirvæntingu.

„Við erum á fullu við að koma öllu í lag aftur. Allt gengur vel en heldur hægt. Ég er ekki með nákvæma tímasetningu á hvenær við munum opna en get sagt með fullri vissu að það verði eftir áramót,“ segir Stella í samtali við Vísi.

Sýninguna átti að opna 11. september síðastliðinn, einungis fimm dögum eftir að eldurinn kom upp. Um er að ræða 1.700 fermetra rými og búið var að setja upp tuttugu og þrjú hvalalíkön þegar eldurinn kviknaði í einu þeirra. Líkönin eru allt frá eins metra löng upp í rúmlega tuttugu metra. Líkanið sem eyðilagðist var úr plastefni sem fuðraði upp. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að eldurinn hafi kviknað út frá vinnu með rafsuðutæki og enginn grunur lék á að um neitt óvenjulegt hafi verið að ræða.

Mikinn reyk lagði frá húsinu.vísir/kolbeinn tumi
Skemmdir á húsnæðinu urðu ekki jafn miklar og búist var við, en Stella segir þetta vissulega hafa verið áfall, enda búið að leggja mikla vinnu í sýninguna. Þó sé ekki ljóst hvert tjónið hafi verið í krónum talið.

„Tjónið var aðallega af völdum vatns og sóts og eldurinn var staðbundinn þannig að nú er í raun bara verið að endurnýja það sem endurnýja þarf,“ segir hún.

„Það er alltaf áfall þegar hlutirnir ganga ekki eins og maður gerir ráð fyrir. En sem betur fer slasaðist enginn og ekkert skemmdist sem ekki er hægt að laga,“ bætir hún við.

Stella segist hafa fundið fyrir mikilli eftirvæntingu, bæði á meðal þeirra sem unnið hafa að sýningunni, ferðamanna og ýmissa fyrirtækja.

„Við teljum þetta fyrst og fremst vera tækifæri í ljósi fjölgunar ferðamanna hér á landi og þetta eykur möguleika á afþreyingu fyrir ferðamennina. Hvalaskoðun hefur gríðarlegt aðdráttarafl og þetta mun vonandi dýpka þessa upplifun ferðamanna. Hvalaskoðunarfyrirtæki hafa sýnt okkur mikinn áhuga og erum þegar komin í samstarf við nokkur þeirra.“ 

Hún segir að öllu verði tjaldað til við opnun sýningarinnar en nákvæm dagsetning verður auglýst síðar.

mynd/stella stefánsdóttir

Tengdar fréttir

Þarf líklega bara að hreinsa hvalina

„Það er alveg klárt að við munum opna. Það er bara spurning um hvenær,“ segir Stella Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar Whales of Iceland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×