Innlent

Hjörtur Bragi skipaður formaður kærunefndar útlendingamála

Atli Ísleifsson skrifar
Hjörtur Bragi Sverrisson mun leiða starf nefndarinnar sem verður skipuð þremur fulltrúum auk starfsmanna.
Hjörtur Bragi Sverrisson mun leiða starf nefndarinnar sem verður skipuð þremur fulltrúum auk starfsmanna. Mynd/Innanríkisráðuneytið.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur skipað Hjört Braga Sverrisson, framkvæmdastjóra mannréttindadeildar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Kosovo, formann kærunefndar útlendingamála.

Alls bárust sextán umsóknir um embættið en sérstök valnefnd mat Hjört Braga hæfastan umsækjenda.

Í frétt á vef innanríkisráðuneytisins segir að í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um útlendinga síðastliðið vor verði frá og með 1. janúar næstkomandi unnt að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar til óháðrar úrskurðarnefndar. Hjörtur Bragi mun leiða starf nefndarinnar sem verður skipuð þremur fulltrúum auk starfsmanna.

„Hjörtur Bragi útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1993. Hann lauk meistaraprófi í alþjóðalögum við University of Miami School of Law árið 1998, doktorsprófi í alþjóðalögum og stjórnmálum árið 2003 frá University of Miami School of International Studies og diplómaprófi í þróunarmálum og átökum árið 2011 frá The Open University, Milton Keynes í Bretlandi.

Hjörtur Bragi starfaði frá febrúar 1993 til september sama ár hjá ríkisskattstjóra. Hann starfaði sem lögmaður frá 1993-1997. Hann hóf störf hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í júní 2001 og starfaði þar til ágúst 2004, fyrst sem lögfræði- og mannréttindaráðgjafi á lögfræði- og upplýsingasviði Mannréttindadeildar ÖSE og frá júní 2002 sem yfirmaður þess sviðs. Hann var yfirlögfræðingur þróunarsjóðs EFTA frá september 2004 til desember 2011. Hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri mannréttindadeildar ÖSE í Kosovo frá maí 2012.

Kærunefnd útlendingamála hefur störf 1. janúar 2015 en Mannréttindaskrifstofa Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands tilnefna sitt hvorn fulltrúann í nefndina. Nefndin verður til húsa í Skuggasundi 3,“ segir í frétt ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×