Borgarleikhúsið hefur ráðið Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur og Hlyn Pál Pálsson sem nýja leiklistarráðunauta.
Hrafnhildur mun einbeita sér að ráðgjöf við leikritun og þróun nýrra leikverka auk annarra verkefna er varða nýsköpun, þýðingar og leikgerðir. Hrafnhildur er, samkvæmt fréttatilkynningu frá Borgarleikhúsinu, ráðin inn með það að markmiði að hlúa betur að íslenskum leikskáldum sem starfa í og fyrir Borgarleikhúsið, veita ráðgjöf við leikritun og önnur verkefni er varða nýsköpun, þýðingar og leikgerðir.
Hlynur mun sitja í verkefnavalsnefnd, starfa sem dramatúrg og sinna verkefnastjórn á ýmsum viðburðum.

