Innlent

ASÍ segir ástandið á ábyrgð ríkisstjórnar

Sveinn Arnarsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra
Mikill hiti hefur færst í umræður um launakjör Íslendinga síðustu daga og búast menn við erfiðum samningaviðræðum í vetur. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í gær að ef gengið yrði að kröfum Læknafélags Íslands myndu útgjöld vegna launa lækna aukast um helming. Eins óskaði Sigmundur Davíð eftir skoðun ASÍ á háum launakröfum lækna.

Þorbjörn Jónsson Formaður Læknafélags Íslands.
Um umtalsverða hækkun á launum lækna að ræða

Þorbjörn Jónsson, formaður læknafélagsins, vildi ekki staðfesta tölur fjármálaráðherra og kvað eðlilegt að hann svaraði fyrir þær sjálfur. „Við höfum aldrei dregið dul á það að við förum fram á verulegar launahækkanir. Við höfum ekki viljað fara í karp um tölur og prósentur í þeim efnum en það er ljóst að um umtalsverða hækkun er að ræða.“

Þorbjörn telur samt að nokkur árangur sé að nást í umræðunni. „Markmið mitt er að ná samningi sem fyrst svo að verkfallsaðgerðir stöðvist. Það þjónar ekki tilgangi að karpa um tölur og prósentur á síðum blaðanna. Stóru tíðindin eru hins vegar þau að ráðamenn þjóðarinnar telja að læknar hafi dregist aftur úr á síðustu árum. Það hafa þeir sagt opinberlega og er merki um að við séum að ná ákveðnum árangri í málflutningi okkar,“ segir hann.

Gylfi Arnbjörnsson Forseti ASÍ
Ábyrgðin alfarið ríkisstjórnarinnar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagðist í viðtali við fréttastofu Sjónvarps vilja fá að heyra afstöðu ASÍ til þeirrar kröfugerðar að hækka laun lækna meira en annarra stétta.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, undrast þessa umleitan forsætisráðherra og telur hann horfa fram hjá eigin ábyrgð á stöðu mála. „Þótt maður eigi ekki að láta orð forystumanna ríkisstjórnarinnar koma sér á óvart þá tekst þeim það samt alltaf.“ Gylfi segir stöðuna sem uppi er á vinnumarkaði nokkuð slæma og búið sé að gefa tóninn. „Sigmundur og Bjarni eru á flótta frá sjálfum sér. Þeir hafa búið til nýja viðmiðun og um það standa deilurnar, að menn njóti þeirra viðmiðunar. Það þýðir ekki fyrir forsætisráðherra að benda á ASÍ í þeim efnum enda komum við ekki nálægt kröfugerð lækna eða samningaviðræðum þeirra.“

Ábyrgðina segir hann fyrst og fremst ríkisstjórnarinnar. Með því að hafa samið um 30 prósenta launahækkun framhaldsskólakennara á forsendum þess að um þjóðarsátt hafi verið að ræða hafi viðmiðið verið sett.

„Þótt óreyndir séu þá bera þeir samt sem áður ábyrgð á því ástandi sem upp er komið á vinnumarkaðnum á Íslandi,“ segir Gylfi. „Það er ástæða fyrir því að menn eru með góðar væntingar um hækkun launa. Til að mynda þegar þeir töluðu um laun menntaskólakennara. Sé það rétt að læknar hafi einnig setið eftir í launaþróun inni á spítölum þá er ekkert óeðlilegt að þeir vilji sækja ríflegar hækkanir. Ábyrgðin fyrst og fremst er ráðamanna þessara ríkisstjórnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×