Innlent

Sjúklingar ekki látnir vita ef tímar falla niður vegna verkfalls

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sjúklingar voru ekki látnir vita að tíminn þeirra féll niður.
Sjúklingar voru ekki látnir vita að tíminn þeirra féll niður.
Sjúklingar sem áttu pantaðan tíma sem féll niður í gær vegna verkfalls voru ekki látnir vita fyrir fram. „Ég átti pantaðan tíma og var ekki látin vita að hann félli niður. Þegar ég spurðist fyrir um þetta var mér sagt að það væri ekki vinnuregla að láta sjúklinga ekki vita af þessu,“ segir Guðrún Katrín Jónsdóttir, sem átti tíma hjá lækni á B3, sem er göngudeild skurðlækninga á Landsspítalanum.

„Ég átti vaktafrí og mætti þarna tilbúin í viðtal. Ég fór fýluferð. Ég hefði ekki eytt tíma mínum í þetta ef ég hefði fengið að vita þetta fyrirfram,“ segir hún enn fremur. Hún segist hafa séð fleiri sem mættu á Landsspítalann en þurftu frá að hverfa.

Þegar blaðamaður hafði samband við göngudeild skurðlækninga fengust þau svör að svona væri vinnureglan.

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segist ekki vita nákvæmlega hvernig málum var háttað á þessari tilteknu deild. „Almennt séð veit fólk það að morgni hvort verkfall er leyst. Við höfum boðað verkfallsaðgerðir í sjö vikur. Ég lít á þetta svipað og í öðrum verkföllum. Óþægindi og tafir eru óhjákvæmilegar afleiðingar verkfalls.“ Þorbjörn segir að ef erindi sé ekki bókað sem bráðatilfelli sé það fellt niður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×