Innlent

Stál í stál í læknadeilu og lítið fundað

Heimir Már Pétursson skrifar
Hvorki gengur né rekur í deilu lækna við ríkið en tugum skurðaðgerða var frestað á Landsspítalanum í dag. Þá var aðeins veitt neyðarþjónusta á geðdeild spítalans þar sem 31 af fimmtíu geðlæknum lögðu niður störf í dag.

Engin þjónusta hefur verið á göngudeild geðdeildar Landsspítalans í dag og sömu sögu er að segja af skurðstofunum þar sem eingöngu hefur verið sinnt bráðatilfellum.

Það hefur augljóslega slæm áhrif á tugi geðsjúklinga sem ekki hafa fengið þjónustu á göngudeild í dag og það var tómlegt um að litast á einum skurðstofuganganna á Landsspítalnum þar sem alla jafna eru gerðar um sextíu aðgerðir á dag.

„Frá því aðgerðir hófust í síðast liðinni viku hefur 170 aðgerðum verið frestað. Ef þessar þrjár verkfallslotur verða, áætlum við að það verði að fresta um 700 skurðaðgerðum,“ segir Alma Möller læknir og framkvæmdastjóri aðgerðasviðs á Landsspítalanum.

Þetta séu alls kyns aðgerðir, bæklunaraðgerðir, augnaðgerðir, almennar skurðaðgerðir og hjartaaðgerðir.

„Og að sjálfsögðu sinnum við bráðatilfellum. Þannig að hér eru gerðar um 15 til 20 aðgerðir á dag þrátt fyrir verkfall. Það eru allt sjúklingar sem þola ekki bið,“ segir Alma.

Augljóst sé að þetta hafi í för með sér óþægindi fyrir sjúklinga sem til að mynda þjáist af verkjum.

Ekkert er hins vegar að gerast við samningaborðið. Skurðlæknar eru ekki boðaðir til samningafundar með ríkinu fyrr en á miðvikudag en læknar mæta til ríkissáttasemjara í fyrramálið. Með hverjum degi í aðgerðum lengist í biðlistum sem flókið verður að vinna úr.

Þið læknar sverjið Hippocratesar eiðinn þegar þið takið ykkar próf o.s.f.v. Svona persónulega, hvernig heldur þú að læknum líði með því að þurfa að standa í þessum aðgerðum?

„Ég held að öllum læknum þyki afleitt að þurfa að standa í þessum aðgerðum og mér finnst það hafa komið mjög skýrt fram hjá formönnum þeirra félaga sem eru í verkföllum,“ segir Alma Möller og ítrekar að hún og starfsfólk Landsspítalans óski þess að það leysist úr þessari kjaradeilu sem allra fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×