Innlent

Fór í mál við flugfélag eftir að hafa lent í Grenada en ekki Granada

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Maðurinn var ekki sáttur með tilboð British Airways og ætlar því í mál.
Maðurinn var ekki sáttur með tilboð British Airways og ætlar því í mál. Vísir/Getty
Bandarískur tannlæknir ætlaði að skella sér til borgarinnar Granada á Spáni en fyrir mistök fór hann til ríkisins Grenada í karabíska hafinu. Hann hefur nú farið í mál við British Airways og ætlar að sækja málið sjálfur, eins og bandaríska fréttastofan NBC greinir frá.

Tannlæknirinn Edward Gamson hafði bókað sæti á ráðstefnu í Portúgal og ætlaði að skoða Granada í leiðinni. Hann segist hafa tekið það skýrt fram þegar hann pantaði flugið. Gamson flaug frá Maryland í Bandaríkjunum og millilenti í London. Þar steig hann svo upp í vél og tók eftir því, þegar 20 mínútur voru liðnar af fluginu, að vélin var að fara í vesturátt.

„Af hverju erum við að fara í vestur þegar við erum að fara til Spánar,“ spurði hann flugþjón um borð og fékk svarið: „Spánar? Við erum að fara til Karíbahafs.“

Gamson segist ekki hafa getað gert sér grein fyrir mistökum flugfélagsins, því skammstöfun flugvallanna sem hann ferðaðist í gegnum var ekki á flugmiðanum hans. Þegar hann var kominn til Grenada fór hann að vinna í því að komast til Portúgals, á ráðstefnuna. Honum tókst að komast þangað en tapaði talsverðum fjármunum því hann hafði verið búinn að greiða fyrir lestarferðir, hótelgistingu og fleira á Spáni áður en hann lagði af stað.

British Airways bauð honum 376 dali (um 42 þúsund krónur) og inneign hjá fyrirtækinu í flugmiðum. Gamson segist hafa tapað um 34 þúsund dölum (3,8 milljónum króna). Hann ætlar að sækja málið sjálfur og sagði við NBC: „Ég er ekki menntaður lögfræðingur, ég er tannlæknir. En ég þekki rétt frá röngu – en ég veit reyndar ekki hvort það skipti einhverju máli í þessu samhengi. Ég hélt bara að flugfélagið myndi vilja bæta mér skaðann, því þetta eru greinilega mistök.“

Breska flugfélagið sneri strax vörn í sókn með því að færa málaferlin upp um dómstig. Málið fer fyrir alríkisdómara í Bandaríkjunum þar sem alþjóðlegar reglur um flug gilda. Talsmaður British Airways vildi ekki tjá sig um málið við NBC, því málaferlin eru enn í gangi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×