Innlent

Fjöldi dómara haldist óbreyttur vegna álags

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Dómurum í héraði var árið 2009 fjölgað um fimm, úr 38 í  43, vegna mikils álags á dómstólanna í kjölfar efnahagshrunsins.
Dómurum í héraði var árið 2009 fjölgað um fimm, úr 38 í 43, vegna mikils álags á dómstólanna í kjölfar efnahagshrunsins. vísir/pjetur
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sem dómsmálaráðherra lagt fram frumvarp þess efnis að fjöldi héraðsdómara haldist óbreyttur til ársloka 2015.

Dómurum í héraði var árið 2009 fjölgað um fimm, úr 38 í  43, vegna mikils álags á dómstólanna í kjölfar efnahagshrunsins. Þessi fjöldi var tímabundinn að því leyti að ekki ætti að ráða í þær stöður sem losnuðu eftir 1.janúar 2013 þar til fjöldi dómara yrði aftur 38. Heimildin hefur síðan þá verið framlengd í tvígang, nú síðast fram til 1.janúar 2015.

Í frumvarpinu segir að dómstólaráð hafi tilkynnt dómsmálaráðuneytinu að það leggi áherslu á að fjöldi héraðsdómara haldist óbreyttur, að minnsta kosti til ársloka 2015. Enn sé mikið álag á dómstólum vegna efnahagshrunsins. Það sé einkum um að ræða mál frá sérstökum saksóknara en einnig einkamál sem höfðuð hafi verið á hendur stjórnendum og starfsmönnum föllnu bankanna og öðrum fjármálastofnunum. Þá er einnig bent á að mikil fjölgun hafi orðið á aðfararbeiðnum sem og málum er varða lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu eða gengi eða vísitölu, en þau mál sæta flýtimeðferð.

Þá segir einnig að ljóst sé að ef sett verður á fót þriðja dómstig, svokallað millidómstig, þurfi að taka til skoðunar hversu margir dómarar eigi að vera á hverju dómsstigi.

Verði frumvarpið að lögum er áætlað að útgjöld aukist um 86 milljónir króna á árinu 2015 frá því sem ella hefði orðið þar sem héraðsdómurum er fjölgað um fimm. Gert hefur verið ráð fyrir að tímabundin fjárheimild vegna málsins verði framlengd um eitt ár í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 og mun lögfesting frumvarpsins því ekki leiða til aukinna útgjalda umfram það sem þar hefur verið gert ráð fyrir, að því er fram kemur í frumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×