Innlent

Þrír rannsóknarhópar fá hvatningarstyrk

Atli Ísleifsson skrifar
Ragnar Bjarnason, Engilbert Sigurðsson og Jón Jóhannes Jónsson
Ragnar Bjarnason, Engilbert Sigurðsson og Jón Jóhannes Jónsson Mynd/Landspítali
Forstjóri Landspítala afhenti í dag þrjá fimm milljóna króna hvatningarstyrki úr Vísindasjóði Landspítala.

Alls bárust átta umsóknir að þessu sinni, en forystumenn rannsóknarhópanna tóku við styrkjunum og kynntu rannsóknir sínar í Hringsal Landspítalans við athöfn í dag.

Engilbert Sigurðsson, yfirlæknir og prófessor, tók við styrk fyrir þróun og innleiðingu mats á vitrænni getu nýgreindra geðklofasjúklinga sem byggir á íslenskum viðmiðum og leggur grunn að vitrænni endurhæfingu.

Jón Jóhannes Jónsson, yfirlæknir og prófessor, tók við styrk fyrir rannsóknir á skemmdum á erfðaefni í líkamsvökvum við meðferðargreiningu illkynja sjúkdóma og Ragnar Bjarnason, yfirlæknir og prófessor, fyrir heilsueflandi snjallsímahugbúnað fyrir ungt fólk.

Þetta er í fimmta sinn sem styrkir af þessu tagi eru veittir á spítalanum, en meðal viðstaddra var Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Í tilkynningu frá Landspítala segir að styrkirnir séu veittir sterkum rannsóknarhópum á spítalanum sem þegar hafi öðlast alþjóðlega viðurkenningu.

Á vef Landspítalans má sjá frekari upplýsingar um verkefnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×