Innlent

Bíll Bylgju notaður í innbrot: Gæti verið gjörónýtur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bylgja biðlar til þeirra sem gætu hafa séð til bílsins frá aðfaranótt sunnudags til mánudags að láta lögregluna vita.
Bylgja biðlar til þeirra sem gætu hafa séð til bílsins frá aðfaranótt sunnudags til mánudags að láta lögregluna vita.
Bylgja Dröfn Dal Magnúsdóttir varð fyrir því óláni um seinustu helgi að bílnum hennar var stolið. Bílnum var lagt fyrir utan heimavistina á Selfossi þar sem Bylgja býr og var hann tekinn þaðan aðfaranótt sunnudags.

Í samtali við Vísi segir Bylgja að bíllinn hafi svo verið notaður í innbrot í sumarbústað á Suðurlandi. Þá hafi hann einnig verið notaður til þess að keyra niður nokkur skilti á leiðinni en hann fannst í afar slæmu ástandi skammt frá Geysi í gær. Þá var stóru grjóti kastað í gegnum afturrúðu bílsins svo hún mölbrotnaði.

Bylgja segist ekki vita hvort að bíllinn sé ónýtur:

„Hann er að minnsta kosti mjög illa farinn. Vatnskassinn er til að mynda ónýtur en ég veit ekki með vélina. Bíllinn varð bensínlaus hjá þeim sem tóku hann þannig að ég er ekki enn búin að ná að setja hann í gang. Hann fer á verkstæði núna á næstu dögum og þá verður skoðað hvort hann sé ónýtur eða hvort það sé hægt að gera við hann.“

Bylgja biðlar til þeirra sem gætu hafa séð bílinn frá aðfaranótt sunnudags og þar til í gær að hafa samband við lögregluna á Suðurlandi.

Stóru grjóti var kastað í gegnum afturrúðu bílsins.
Vatnskassinn í bílnum er meðal annars ónýtur.
Eins og sjá má er bíllinn mjög illa farinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×