Innlent

Segir innflytjendur hjálparvana gagnvart kerfinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Elín Hirst
Elín Hirst Vísir/Daníel
23 ára karlmaður frá Tælandi, sem þingkonan Elín Hirst auglýsti eftir á Facebook í gærkvöldi, er kominn í leitirnar. Maðurinn, sem haldinn er geðröskun, hefur búið á Íslandi undanfarin átta ár.

Elín segir í færslu á Facebook að hundruð hafi tekið þátt í hjálparstarfinu á samfélagsmiðlinum og maðurinn sé kominn undir læknishendur. Vinir hennar hafi leitað til sín í miklu uppnámi og algjörlega ráðalaus. Tungumálaerfiðleikar og erfiðleikar við að leita sér hjálpar í gegnum kerfið hafi verið að buga þau.

„Ég spyr mig hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa hér umboðsmann innflytjenda til að aðstoða og tryggja rétt þeirra sem íslenskra borgara þegar eitthvað alvarlegt bjátar á, eins og hjá vinum mínum í gær,“ segir Elín.

„Þetta er hvorki fyrsta eða eina dæmið sem ég hef upplifað þetta nákvæmlega sama hjá borgurum landsins og eru innflytjendur þegar eitthvað mikið bjátar á að þá eru þeir hjálparvana gagnvart kerfinu okkar; t.d. gagnvart lögreglu, heilbrigðiskerfi, skólakerfi.“

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að Mannréttindaskrifstofa borgarinnar veiti innflytjendum ráðgjöf og upplýsingar á ensku, pólsku, filippseysku, litháísku og rússnesku. Símanúmerin má finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×