Innlent

Ökuníðingur á stolnum bíl ógnaði golfurum á Nesinu

Gissur Sigurðsson skrifar
Vegfarandi náði myndbandi af eltingaleik lögreglu áður en bíllinn endaði ofan í grunninum. Áður hafði hann ekið inn á golfvöllinn á Seltjarnarnesi.
Vegfarandi náði myndbandi af eltingaleik lögreglu áður en bíllinn endaði ofan í grunninum. Áður hafði hann ekið inn á golfvöllinn á Seltjarnarnesi.
Ökuníðingur í mjög annarlegu ástandi, endaði ökuferð á stolnum sendibíl, ofan í húsgrunni á svonefndum Lýsisreit í grennd vð JL húsið við Hringbraut um ellefuleytið í gærkvöldi, þar sem bíllinn vóg salt á kanti ofan í grunninum.

Áður hafði hann ekið á miklum hraða eftir gangstíg frá Gróttu og inn á golfvöllinn úti á Nesi, þar sem golfiðkendur áttu fótum fjör að launa. Áður voru vitni búin að láta lögreglu vita af manninum, en hann virti stöðvunarmerki lögreglumanna að vettugi og ók utan í tvo lögreglubíla, sem reyndu að hefta för hans.

Skyndilega beygði hann svo út af Eiðsgranda og ók í gegn um hlið að  á girðingu umhverfis grunninn, þar sem hann stöðvaðist loks og vóg salt á háum kanti, en þá tóku að minnstakosti fimm lögreglubílar þátt í eftirförinni.

Lögregla kallaði á kranabíl, sem dró bílinn af kantinum og var ökumaðurinn handtekinn. Hann verður yfirheyrður í dag þegar víman verður runnin af honum.

Maðurinn á yfir höfði sér margvíslegar kærur fyrir tiltækið, en mildi þykir að allir, sem á vegi hans urðu, skuli hafa sloppið ómeiddir.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem vegfarandi náði af eltingaleiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×