Enski boltinn

Van Gaal ánægður með matinn á Englandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Van Gaal á blaðamannafundi.
Van Gaal á blaðamannafundi. Vísir/Getty
Louis van Gaal, stjóri Manchester United, er ánægður með fyrsta hálfa árið í starfi hjá Manchester-liðinu. Hann segir að stuðningurinn við liðin sé til fyrirmyndar og er ánægður með baráttuandann hjá liðinu.

„Fyrsta hálfa árið hefur verið gott," sagði van Gaal og bætti við: „Það mikilvægasta hefur verið stuðningurinn frá stuðningsmönnunum og baráttuandinn í leikmönnunum."

„Við getum verið ánægðir. Við erum að bæta okkur í hverri viku og við horfum opnum augum til nýs árs."

United mætir Stoke á morgun, nýársdag og van Gaal segir að Giggs hafi sagt honum að það er ekki auðvelt að mæta til Stoke-on-Trent:

„Við þurfum að sýna framfarir gegn Stoke og í útileikjunum. Við þurfum að ná betri stjórn á fleiri leikjum, en Ryan Giggs segir að Stoke sé erfiður staður til að heimsækja."

„Allir vita að maður nær ekki endurheimt á 48 tímum. Það hefur verið staðfest, en við verðum að spila. Þetta er menningin á Englandi," sagði van Gaal og hélt áfram:

„Mér er sama en þetta er slæmt fyrir leikmennina og fyrir leikinn. Sjáið bara síðari hálfleikinn hjá okkur gegn Tottenham og síðari hálfeikinn hjá Southampton og Chelsea."

Þessi 63 ára gamli fyrrum stjóri liða á borð við Barcelona og Bayern Munchen líkar lífið á Englandi.

„Lífið á Englandi er frábært. Ég hef einungis hitt vinalegt fólk á götunum og á veitingastöðum. Allir sögðu áður en ég kæmi að maturinn er vondur, en maturinn er frábær og vínið stórkostlegt," sagði Hollendingurinn kampakátur og bætti við að lokum:

„Nágrannarnir mínir eru mjög indælir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×