Innlent

Allt á kafi í snjó á Akureyri

Vísir/Auðunn
Það er kol ófært um allan Akureyrarbæ og eru starfsmenn bæjarins nýbyrjaðir að ryðja og er búist við að verkið muni ganga hægt. 

Björgunarsveit var kölluð út í nótt til að aðstoða fólk í föstum bílum út um allan bæinn og fyrirsjáanlegt er að mörgum Akureyringum mun reynast erfitt að komast til vinnu nú í morgunsárið.

Sjúkrabíll var meðal þeirra sem festu sig en lögreglan kom til aðstoðar og flutti sjúklinginn upp á spítala. Að sögn lögreglu er þetta óvenju mikill snjór í bænum, en snjó kyngdi þar niður í alla nótt. Vindurinn hefur víða blásið honum í stóra skafla.

Nær allir vegir á Vestfjörðum eru ófærir, sömuleiðis vegir á Norðurlandi Vestra og að líkindum á norðaustur horninu, þar sem enn er hvasst, og svo á Austfjörðunum, en vegagerðarmenn eru nú að meta ástandið.

Hinsvegar eru allar aðalleiðir opnar á Suður- og Vesturlandi, en þar er víðast hvar flug hálka á vegum eins og til dæmis á Hellisheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×