Innlent

Samkomulag í höfn í Lima

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Loftslagsráðstefnan í Lima dróst um tvo daga vegna skiptra skoðana um rammasamninginn.
Loftslagsráðstefnan í Lima dróst um tvo daga vegna skiptra skoðana um rammasamninginn. Vísir/AFP
Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa komist að samkomulagi um hvernig skuli takast á við loftslagsbreytingar, framhald þeirra og afleiðingar.

Ríkin funduðu í Lima í Perú en loftslagsráðstefnan hófst í byrjun mánaðar. Hún dróst hins vegar um tvo daga vegna skiptra skoðana um rammasamninginn sem endanalega var samþykktur í gærkvöldi. Drögin verða höfð til hliðsjónar á Loftslagsráðstefnunni í París á næsta ári þegar nýr loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna verður undirritaður.

Rammasamningurinn sem samþykktur var í Líma markar tímamót í baráttunni við loftslagsbreytingar og losun gróðurhúsalofttegunda. Í fyrsta skipti verða öll lönd skikkuð til að draga úr útblæstri.

Þrátt fyrir að stór skref hafi verið tekin í Perú er ljóst að margar stórar ákvarðanir bíða afgreiðslu. Manuel Pulgar-Vidal, umhverfisráðherra Perú, stýrði fundinum en hann sagði í nótt að samningurinn sé langt því frá að vera fullkominn.

Samtök vísindamanna og umhverfisverndarsinna vítt og breitt hafa lýst yfir vonbrigðum með samninginn. Alden Meyer hjá samtökum óháðra vísindamanna sagði samþykktina vonbrigði og ljóst að út frá henni ómögulegt verði að stemma stigum við áframhaldandi hlýnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×