Innlent

Sigmundur Davíð segir jólasveina hafa óttast mannréttindaráð

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigmundur sagði frá jólaballi á Facebook í dag.
Sigmundur sagði frá jólaballi á Facebook í dag. Vísir/Stefán

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur stillt sér upp með þeim sem vilja verja kristna siði í kringum jólin. Hann skaut á mannréttindaráð Reykjavíkurborgar í frásögn af jólaballi á Facebook-síðu sinni í dag og sagði að jólasveinarnir sem skemmtu börnum hafi verið smeykir og beðið fólk um að fylgjast með útsendara frá ráðinu á meðan þeir sungu Heims um ból.

„Gluggagægir og Stúfur mættu galvaskir til að leiða sönginn en þegar kom að því að syngja Heims um ból urðu þeir bræður smeykir og gluggagægir bað fólk að vakta gluggana og láta vita ef sæist til útsendara frá mannréttindaráði Reykjavíkurborgar,“ skrifaði ráðherrann.

Undanfarna daga hefur heyrst gagnrýni á reglur Reykjavíkurborgar og fleiri sveitarfélaga um að takmarka aðgang trúarefnis í grunnskólum en meðal annars stangast það á við samskiptareglur borgarinnar við trúfélög að flytja börnum hugvekju í kirkjum. 

Líf er formaður mannréttindaráðs Reykjavíkur. Vísir/GVA

Fréttastofa sagði frá því í gær að Líf Magneudóttir, formaður mannréttindaráðs borgarinnar, teldi heimsókn grunnskólabarna í Langholtsskóla brjóta í bága við reglurnar. Hún telur algjörlega ólíðandi að skólar hafi milligöngu um trúarinnrætingu barna. 

Þá vöktu einnig athygli ummæli Ingu Sigrúnar Atladóttur, skólastjóra Valsárskóla, um að hún ætlaði að verja kristnar hefðir í skólanum hjá sér. Hún sagðist bíða eftir símtali þar sem krafist sé að hætt yrði að lita Jesúmyndir og fara með nemendur í kirkju. „Það er slagur sem ég ætla að vanda mig að vinna,“ sagði hún á Facebook-síðu sinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.