Innlent

Ósáttur við túlkun á samskiptareglum við trúfélög

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Halldór Halldórsson vill endurskoða samskiptareglur borgarinnar og trúfélaga ef túlkun þeirra er á reiki.
Halldór Halldórsson vill endurskoða samskiptareglur borgarinnar og trúfélaga ef túlkun þeirra er á reiki. Vísir/Pjetur
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur, segir mikilvægt að ræða samskiptareglur borgarinnar við trúfélög. Hann er ekki sáttur við þá túlkun sem fram hefur komið. Formaður mannréttindaráðs sagði um helgina að heimsókn grunnskólabarna í kirkju bryti reglur borgarinnar.

Sjálfstæðismenn í borginni hafa sett málið á dagskrá á næsta borgarstjórnarfundi. Halldór segir mikilvægt að ræða málið á vettvangi borgarstjórnar, sem sé vettvangur opinn almenningi.

Telur hann tilefni til að endurskoða reglurnar? „Það gæti verið ástæða til að endurskoða þessar reglur ef fólk er ekki sammála um túlkun á þessu. Nú ber að taka það skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir trúfrelsi en þegar frelsið er túlkað með þessum hætti, eins og formaður mannréttindaráðs gerði, þá finnst mér það vera farið að snúast um það að það eigi að skerða frelsi ansi margra.“

Halldór segir flesta íslendinga halda upp á jól og því sé ekki óeðlilegt að börnum sé kennt af hverju það er gert. „Og þessi umræða kemur upp í aðdraganda jóla og á aðventunni eins og það sé eitthvað óeðlilegt hvers vegna, fjalla um það og fræða börnin okkar, um það hvers vegna við erum að halda jól,“ segir hann.

„Að börn megi ekki fara í kirkju og prestur megi ekki ræða við þau um fagnaðarerindið og kærleiksboðskapinn, það er auðvitað mjög sérstakt,“ segir Halldór.

„Það er í sjálfu sér ekki skólanna að viðhalda kristinni trú eða slíkt, það er fjölskyldunnar, það er foreldranna, uppalendanna og kirkjunnar og svo bara veljum við hvort við förum þangað. Mér finnst þetta snúast mikið um frelsi, frelsishugtakið. Af hverju á að skerða frelsi þeirra sem að vilja gera þetta?“ spyr hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×