Innlent

Full alvara á bak við uppsögnina

Hjörtur Hjartarson skrifar
„Ég átti engra annarra kosta völ,“ segir svæfingalæknir á Landspítalanum sem í dag sagði upp eftir tuttugu og tveggja ára starf. Ef fram fer sem horfir verður erfitt að manna stöður svæfingasérfræðinga á gjörgæslu spítalans.

Heilbrigðisráðherra sagði fyrir helgi að hann hefði ekki trú á því að læknar myndu segja upp og að Ísland stæði upp án nægra sérfræðilækna. Annað virðist þó ætla að koma á daginn. Tveir svæfingalæknar sögðu upp störfum á Landspítalanum í morgun og veldur það stofnuninni miklum vandræðum.

„Ég hef hugsað um þetta síðan ástandið hófst í haust og rætt þetta við fjölskylduna mína og ég hef sjálfrar mín vegna ekki talið mér fært annað en að taka þessa ákvörðun,“ segir María Sigurðardóttir, svæfinga- og gjörgæslulæknir sem sagði upp störfum í morgun.

Framkvæmdastjórn Landspítalans fundaði vegna málsins í morgun og var þar lýst þungum áhyggjum af stöðu mála. Að lágmarki þurfa átta svæfingalæknar að starfa á spítalanum sé ætlunin að hver þeirra vinni tvær helgar í mánuði. Þegar uppsagnir Maríu og Einars Páls Indriðasonar, sem einnig sagði upp störfum í morgun, taka gildi 1.apríl verða einungis 6,7 stöðugildi mönnuð.

Ykkur er væntanlega full alvara með þessum uppsögnum?

„Þetta er sjálfstæð ákvörðun sem hver og einn tekur og mér er fyllsta alvara með þessa ákvörðun.“

Ofan á ört fjölgandi uppsagnir blasir við sú staðreynd að 57 prósent lækna eru 50 ára og eldri 41 prósent eru 55 ára en við þau aldursmörk mega læknar hætta að taka vaktir. Ef þróunin næstu tíu árin verður eins og hún hefur verið undanfarin misseri, það er að árlegur fjöldi kandídata frá HÍ verði 48, 66 læknar flytja af landi brott á hverju ári og 28 heim má reikna með að árið 2023 verði rúmlega 390 einstaklingar per lækni á Íslandi, samanborið við 295 árið 2014 og þykir álagið yfirdrifið í dag.

Orð Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra í síðustu viku þar sem hann talaði um að heildarlaun lækna væru á bilinu frá ein komma ein milljón króna til 1 komma þrjár milljónir eru sögð hafa hleypt illu blóði í kjaradeiluna. Hann sagði á þingi í dag að hann hafi aðeins verið að benda á staðreyndir.

„Vilji menn fá þessar tölur frá fjármálaráðuneytinu er alveg sjálfsagt að útvega þær, þetta er allt saman til. Staðan er þessi: Ef gengið verður að kröfum lækna eins og þær hafa birst á 30 samninganefndarfundum mun launakostnaður ríkisins hækka um 50 prósent,“ sagði Bjarni Benediktsson á Alþingi.

Alma Möller, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítalans, segir uppsagnirnar valda þungum áhyggjum enda hefur ekki gengið sem skyldi að manna síðustu misseri. Hún segir að ef af uppsagnir svæfingalæknanna bætist við þá verði rétt svo hægt að sinna vöktum og bráðastarfsemi.

Viðtal við Ölmu má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×