Innlent

Óla Ket skiltinu á Laugarvatni stolið

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Frá afhjúpun skiltisins á Ólafstorgi á Laugarvatni 15. ágúst 2013.
Frá afhjúpun skiltisins á Ólafstorgi á Laugarvatni 15. ágúst 2013. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Skilti, sem var sett upp til heiðurs Óla Ket eða Ólafi Ketilssyni, einum frægasta rútubílstjóra landsins, á hringtorginu á Laugarvatni 15. ágúst 2013 á 110 ára afmælisdegi Ólafs, var stolið um helgina. Hringtorgið ber nafn Ólafs heitins - Ólafstorg.

Þá var jólatré Lionsmanna á Laugarvatni, sem var kveikt á um helgina líka skemmt, auk þess sem nokkur umferðarskilti urðu fyrir barðinu á skemmdarvarginum eða skemmdarvörgunum.

Af Ólafi Ketilssyni voru sagðar skemmtilegar sögur og varð hann, í lifanda lífi, þjóðþekkt persóna vegna tilsvara sinna og  verka. Hann var mikill brautryðjandi í samgöngumálum og fólksflutningum. Hann hafði með hendi sérleyfisakstur á Laugarvatn og að Geysi og Gullfossi í yfir 50 ár.

Það voru dætur Ólafs, þær Ásrún og Katla Kristín og Börkur, kjörsonur hans, sem afhjúpuðu skiltið að viðstöddu fjölmenni á Laugarvatni á síðasta ári. Þess er nú sárt saknað en Böðvar Ingi Ingimundarson, húsasmiður á Laugarvatni, útbjó skiltið og skar út í það.

Þeir sem vita um  afdrif þess eru beðnir að láta lögregluna á Selfossi vita í síma 480-1010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×