Innlent

Allt óljóst með veðurfréttir RÚV eftir áramót

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, er eigandi Veðurfélagsins.
Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur, er eigandi Veðurfélagsins.
„Það sem er kristaltært í þessu máli er að það er enginn samningur til staðar varðandi veðurfréttir eftir 31. desember,“ segir Haraldur Ólafsson veðurfræðingur og eigandi Veðurfélagsins ehf.  Veðurfélagið hefur síðastliðin 16 ár séð um veðurfréttirnar á RÚV en í sumar var samningnum við félagið sagt upp.

RÚV hefur sagt upp samningi við Veðurfélagið og nú mun RÚV leita eftir tilboðum frá Veðurstofunni, Belgingi og Veðurfélaginu.

Ákveðið hefur verið að ganga til frekari viðræðna við Veðurstofuna en þó sé jafnframt  verið að ræða við þá veðurfræðinga sem nú sjá um veðurfréttirnar, en þeir starfa sem verktakar á vegum Veðurfélagsins.

Þetta staðfestir Haraldur en segir enn óljóst hvernig málum verði háttað eftir áramót þar sem viðræður séu í raun enn í gangi á milli Veðurfélagsins og RÚV.

Aðspurður hvort hann viti hvers vegna samningnum við Veðurfélagið hafi verið sagt upp segist hann ætla að það sé hluti af þeirri viðleitni að hagræða í rekstri RÚV.

„Þessi samningur hefur auðvitað verið tekinn reglulega til endurskoðunar á síðustu árum og þetta snýst náttúrulega um hagræðingu, eða ég býst að minnsta kosti fastlega við því,“ segir Haraldur.

Ólafur Rögnvaldsson, veðurfræðingur og eigandi Belgings, segist ekki vita hvers vegna RÚV hafi ákveðið að ræða frekar við Veðurstofuna eftir að hafa leitað eftir tilboðum í veðurfréttirnar.

„Okkur var ekkert tilkynnt sérstaklega hvers vegna það var frekar ákveðið að ræða við Veðurstofuna en okkur,“ segir Ólafur. Þá segir hann jafnframt að það hafi verið nokkuð óljóst hvað RÚV hafi verið að biðja um þegar eftir tilboðum var leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×