Innlent

Vikan á Vísi: Mannsbjörg, poppstjörnur í heimsókn og nýr ráðherra

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vísir
Læknaafrek, poppstjörnur og nýr innanríkisráðherra voru málin sem hreinlega áttu fréttavikuna. Skiptar skoðanir voru þó af sumum þeirra frétta sem fluttar voru af hjónakornunum Beyoncé og Jay Z en allir virðast á einu máli um frækið afrek Tómasar Guðbjartssonar og teymisins sem bjargaði lífi fórnarlambs hnífsstunguárásar.

Afrek Tómasar og teymisins sem bjargaði lífi fórnarlambs hnífsstunguárásar á Hverfisgötu vöktu athygli.Vísir
Skorinn upp með plasthnífi á meðan annar hélt rifjunum í sundur

Þær björgunaraðgerðir sem unnar voru á Landspítalanum á sunnudag í síðustu viku eftir að karlmaður var stunginn með hnífi á Hverfisgötu þykja kraftaverki líkastar. Maðurinn, Sebastian Andrzej Golab, var stunginn í gegnum hjartað og voru áverkarnir verulega alvarlegir, en á tímapunkti var honum ekki hugað líf. 

Það voru skurðlæknarnir Tómas Guðbjartsson og Helgi Kjartan Sigurðsson sem tóku á móti Sebastiani á Landspítalanum, en báðir voru þeir á bakvakt heima hjá sér. Ástandið var það slæmt að enginn tími gafst til að fara með Sebastian á skurðstofu, sem staðsett er á annarri hæð hússins. Ákvörðun var því tekin um að fara inn í eitt herbergi slysavarðstofunnar og opna þar brjósthol hans. „Það var bara með hálfgerðum plasthníf sem er notaður meira til að hreinsa sár. Ekki eiginlegur skurðhnífur,“ sagði Tómas í samtali við Vísi.

„Tómas og hans teymi gáfust aldrei upp“

Fleiri afrek Tómasar skurlæknis voru rifjuð upp í kjölfarið; meðal annars þegar hann bjargaði Jóni Gunnari Benjamínssyni sem lenti í alvarlegu bílslysi á Hellisheiði árið 2007. „Mér skilst að fáir hafi komið jafn slasaðir eins og ég inn á bráðamóttöku og lifað það af,“ segir Jón Gunnar. Hann kastaðist út úr bílnum og fékk hann ofan á sig. Í dag er Jón lamaður fyrir neðan mitti. 

Ólöf var kynnt til leiks sem nýr innanríkisráðherra.Vísir
Ólöf Nordal verður innanríkisráðherra

Ólöf Nordal var skipuð innanríkisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, tilkynnti þingmönnum flokksins skipan nýs ráðherra á þingflokksfundi í Valhöll.. Ólöf tók við embættinu af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sagði af sér á dögunum.

Harkalegar nágrannaerjur í Hörgárdal

Fyrir rúmum tveimur árum keypti parið Siggi og Oddur Andri, eða þeir Sigurður Hrafn Sigurðsson og Oddur Andri Thomasson Ahrens, draumaeign í Hörgárdal. Þar ætluðu þeir að búa friðsælu lífi saman með sína hunda, kanínur og hænur. Þessi draumur breyttist í martröð – þeir sitja fastir í því sem ekki er hægt að kalla annað en svæsnar nágrannaerjur.

Þyrlan sást í bakgarði lúxussumarhúss sem Beyoncé og Jay Z eru sögð hafa verið í.Vísir
Svört þyrla í bakgarðinum þar sem Beyoncé og Jay Z eru sögð vera

Svartri þyrlu var lagt fyrir utan lúxussumarhús í Úthlíð í Biskupstungum þar sem talið var að tónlistarstjörnurnar Jay-Z og Beyoncé séu stödd. Þyrlan er, eins og sést á myndinni, staðsett í bakgarði sumarhússins. Eigandi staðarins, veitingamaðurinn Jóhannes Stefánsson í Múlakaffi, hafnar því hinsvegar að þau séu á staðnum. „Nei, nei, nei. Það getur ekki staðist,“ sagði hann aðspurður hvort hann væri að hýsa tónlistarfólkið bandaríska.

Vísir staðfesti svo veru poppstjörnunnar Beyoncé og eiginmanns hennar Jay Z á landinu. Mynd náðist af þeim ganga úr svartri þyrlu við Skógafoss á miðvikudag. Tvær Range Rover bifreiðar biðu parsins við lendingarstaðinn og var parinu ekið áleiðis að fossinum.

Greinin sem Biggi skrifaði vakti hörð viðbrögð.
Biggi lögga gerir allt brjálað

Grein sem Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, birti á Vísi í síðustu viku hefur vægast sagt vakið hörð viðbrögð. Fyrirsögn greinarinnar var „Greinin sem ekki má skrifa“. Svo hörð voru viðbrögðin að Birgir fann sig knúinn til að skrifa afsökunarbeiðni. „Í gær steig ég út á hálli ís en ég hef nokkurn tímann gert í þessum skrifum mínum,“ skrifaði Birgir og hélt áfram: „Ég vissi að viðbrögðin myndu vera misjöfn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×