Innlent

Reykjavík dýrari en Ósló fyrir sænska ferðamenn

Atli Ísleifsson skrifar
Verðlag var kannað í 32 borgum víðs vegar um heim.
Verðlag var kannað í 32 borgum víðs vegar um heim. Vísir/Stefán
Reykjavík er næstdýrasta borg heims fyrir sænska ferðamenn samkvæmt nýrri verðkönnun Pricerunner. Buenos Aires, höfuðborg Argentínu, er efst á listanum, en þetta er í fyrsta sinn í þrettán ár sem Ósló, höfuðborg Noregs, skipar ekki efsta sæti listans.

Sagt er frá niðurstöðum könnunarinnar í frétt Svenska Dagbladet og sænska ríkissjónvarpinu, en alls var verðlag kannað í 32 borgum víðs vegar um heim. Fyrirtækið kannaði verð á 25 ólíkum vörum og þjónustu sem talin eru áhugaverð fyrir ferðamenn.

Indverska borgin Mumbai er ódýrust en rússneska höfuðborgin Moskva næstódýrust. „Moskva hefur ekki verið þekkt sem ódýr borg en hún hefur fallið líkt og steinn á listanum. Fall rúblunnar hefur skilað sér í lægra verðlagi,“ segir Stefan Ny, markaðsstjóri Pricerunner.

Ny segir það hafa komið á óvart að Ósló hafi farið niður nokkur sæti á listanum og skipi nú það þriðja. Reykjavík, sem síðustu ár hefur verið mun ódýrari, er í sætinu fyrir ofan Ósló. „Við túlkum það þannig að íslenskur efnahagur hafi endurheimt sig eftir fjármálakreppuna.“

Tokyo hefur farið úr því að vera ein dýrasta borgin og skipar nú fjórða neðsta sætið á listanum. Er það rakið til þess að gengi japanska jensins hefur fallið gagnvart sænsku krónunni.

Dýrustu borgirnar

1. Buenos Aires, Argentína

2. Reykjavík, Ísland

3. Ósló, Noregur

4. París, Frakkland

5. New York, Bandaríkin

Ódýrustu borgirnar

1. Mumbai, Indland

2. Moskva, Rússland

3. Varsjá, Pólland

4. Tokyo, Japan

5. Prag, Tékkland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×