Innlent

Námskeið Blancs á Íslandi fjarlægt af heimasíðu RSD

Atli Ísleifsson skrifar
Bandaríkjamaðurinn Julien Blanc gefur sig út fyrir að vera stefnumótasérfræðingur.
Bandaríkjamaðurinn Julien Blanc gefur sig út fyrir að vera stefnumótasérfræðingur.

Svo virðist sem fyrirhuguðu námskeiði bandaríska fyrirtækisins Real Social Dynamics (RSD) á Íslandi um hvernig skuli „ná sér í konu“  hafi verið aflýst. Til stóð að „stefnumótanámskeið“ fyrirtækisins yrði haldið í Reykjavík dagana 11. til 13. júní næstkomandi, en námskeiðið hefur nú verið fjarlægt af heimasíðu fyrirtækisins.

Mikið hefur verið rætt um Julien Blanc síðustu daga en hann starfar á vegum Real Social Dynamics. Fyrirtækið er með fjölda „stefnumótaþjálfara“ á sínum snærum sem fara víða um og halda fyrirlestra og námskeið. Námskeið þeirra, „Boot Camps“ hafa verið mikið gagnrýnd og hafa nú rúmlega 11 þúsund manns nú skrifað undir áskorun um að Julien Blanc verði ekki hleypt inn í landið. Er hvatt til þess að Ísland færi að fordæmi Bretlands og Ástralíu um að neita Blanc um inngöngu í landið.

Námskeið í Svíþjóð einnig fjarlægð
Blanc er afar umdeildur vegna þeirra aðferða sem hann boðar að séu áhrifaríkar. Þær virðast margar hverjar fela í sér að beita konur ofbeldi af ýmsum gerðum. Á síðu undirskriftasöfnunarinnar er Blanc kallaður ofbeldismaður sem misnoti og niðurlægi konur.

Fyrirhuguð námskeið RSD í Gautaborg og Stokkhólmi hafa einnig verið fjarlægð af heimasíðu fyrirtækisins, en þúsundir Svía höfðu einnig skrifað undir áskorun um að neita honum inngöngu í landið.

Blanc hefur verið afar virkur á samfélagsmiðlum á borð við Twitter, Instagram og Youtube en Twitter-reikningur hans er nú lokaður auk þess sem myndband sem hann setti á Youtube um hvernig ætti að ná sér í konu í Tókýó hefur verið eytt.

Í því myndbandi sagði Blanc til dæmis: „Ef þú ert hvítur maður í Tókýó, þá máttu gera hvað sem þú vilt. Ég er labba bara þar um, gríp um höfuðið á einhverjum stelpum, [...] og ýtti þeim í klofið á mér.“

Vildi að íslenskir karlmenn reyndu við Blanc
Hugleikur Dagsson lagði til að í stað þess að neita Blanc inngöngu í landið myndu íslenskir karlmenn taka sig saman og reyna við hann þegar hann kæmi til landsins.

Stakk hann meðal annars upp á að hann yrði blikkaður og honum strokið um lærið. Hugleikur sagði að slíkur gjörningur myndi síst láta Blanc líða eins og hetju.

Ekki náðist í fulltrúa RSD við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.