Innlent

„Neydd“ til að segjast hafa logið til um nauðgun

Bjarki Ármannsson skrifar
Þuríður segir upptökuna tilbúið sönnunargagn.
Þuríður segir upptökuna tilbúið sönnunargagn. Vísir/Valli/Getty
Lögmaður konu sem nýlega var sýknuð af því að hafa ásakað fyrrverandi yfirmann sinn um nauðgun segir upptöku sem lögð var fram í málinu „tilbúið sönnunargagn.“ Á upptökunni segir konan að hún hafi ranglega sakað manninn um nauðgun en lögmaður konunnar segir hana hafa verið neydda til þess að halda þessu fram.

Neydd til að segjast hafa logið

Konan kærði manninn upphaflega vegna þriggja nauðgana sem eiga að hafa átt sér stað á árunum 2010 og 2011. Var hún þá starfsmaður hans.

„Málið var síðar fellt niður hjá lögreglu meðal annars vegna tungumálaörðugleika við yfirheyrslu,“ segir Þuríður Kristín Halldórsdóttir, lögmaður konunnar. „Þar varð misskilningur. Lögregla gaf sér ekki nægan tíma til rannsóknar að mínu mati og beið ekki eftir læknisvottorðum frá sjúkrahúsi.“

Maðurinn höfðaði þá einkarefsimál gegn konunni en þar var hún að lokum sýknuð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Segir Þuríður að á meðan málið var fyrir dómi hafi því sífellt verið frestað vegna þess að beðið var eftir ákveðnu sönnunargagni sem maðurinn vildi leggja fram.

„Á meðan var hann búinn að sitja fyrir konunni og hafa í hótunum. Hann skipaði henni að fara til lögreglunnar og segjast hafa logið þessu öllu saman, annars hlyti hún og börn hennar verra af,“ segir Þuríður. „Síðan náði hann henni inn í bíl, þar sem einnig kom félagi hans, og þar var hún neydd til að segja að hún hefði logið þessu. Hún var dauðhrædd og hafði ekki hugmynd um að verið væri að taka þetta upp.“

Sýknuð en áfrýjað

Upptakan var lögð fram fyrir Héraðsdómi og farið með hana til lögreglu. Konan var kölluð til lögreglunnar til þess að ræða upptökuna en breytti ekki vitnisburði sínum.

„Hún sagðist ekki hafa þorað annað en að segja að hún hefði logið þessu,“ segir Þuríður.

Konan var að lokum sýknuð. Fékk fyrrverandi yfirmaður hennar ekki þær fimm milljónir króna sem hann fór fram á í miskabætur en neyddist sjálfur til að greiða 800 þúsund krónur í málskostnað. Dómari taldi upptökuna ekki hafa sannað að konan bæri ásakanirnar upp á manninn tilefnislaust eða gegn betri vitund.

„Hún var ekki missaga varðandi þetta fyrir dómi og þess vegna segir dómari þetta,“ segir Þuríður. „En þetta var tilbúið sönnunargagn og mér finnst ansi langt gengið af meintum geranda að neyða konuna til þess að segja þetta. Og ég harma viðbrögð fólks.“

Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður mannsins, bendir í viðtali við Vísi á að lögreglan hafi fengið upptökuna í sínar hendur en aldrei séð ástæðu til að kalla manninn til yfirheyrslu. Jafnframt hafi engin kæra verið lögð fram vegna meintu hótunarinnar. Hann segir að úrskurði Héraðsdóms verði áfrýjað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×