Innlent

Telur útgjöld RÚV of mikil

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Útgjöldin RÚV eru of mikil að mati varaformanns fjárlaganefndar Alþingis sem vill skilgreina betur hlutverk félagsins. Tap félagsins á síðasta rekstrarári var 271 milljón króna eftir skatta.

Þetta kemur fram í ársreikningi Ríkisútvarpsins frá september 2013 til loka ágúst 2014 en reikningurinn var birtur í gær. Þar segir einnig að tekjur RÚV hafi minnkað umtalsvert þar fallið hafi verið frá því haustið 2013 að RÚV fengi útvarpsgjaldið óskert. Í tilkynningu frá stjórn félagsins óskar hún eftir því að RÚV fái allt gjaldið beint til sín.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, gagnrýnir það hversu mikið útgjöld fyrirtækisins hafi vaxið.

„Framlag skattgreiðanda til fyrirtækisins frá stofnun er nú orðið 23 milljarðar. Tapið hefur verið 1,2 milljarður. Skattgreiðslurnar til stofnunarinnar eða tekjur þeirra af útvarpsgjaldinu hefur aldrei verið hærri og er að hækka vegna þess að það eru fleiri að greiða en útgjöldin halda áfram að vaxa. Vandi stofnunarinnar felst fyrst og fremst í útgjaldavanda og það verður að taka á þeim þætti málsins. Menn komast ekkert hjá því. Þeir hafa aldrei vitað stofnunin hvað þeir eiga að spila með og hvað þeir fá,“ segir Guðlaugur.

Guðlaugur segir mikilvægt að skoða hlutverk RÚV. „ Það verður auðvitað að mínu áliti að skilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins betur. Til hvers erum við með ríkisfjölmiðil og hvað á hann að gera,“ segir Guðlaugur.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í Ingva Hrafn Óskarsson, formann stjórnar RÚV, eða Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóra, vegna málsins í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×