Innlent

15 mánaða fangelsi fyrir að keyra dópaður

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Með brotum sínum rauf maðurinn reynslulausn og var meðal annars horft til þess við ákvörðun refsingar.
Með brotum sínum rauf maðurinn reynslulausn og var meðal annars horft til þess við ákvörðun refsingar. Vísir
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 15 mánaða fangelsi fyrir að hafa í tvígang ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Fyrra atvikið átti sér stað í mars á þessu ári og það síðara í maí. Þá var hann einnig sviptur ökuréttindum ævilangt.

Gefnar voru út tvær ákærur á hendur manninum. Í báðum tilvikum var hann ákærður fyrir akstur undir áhrifum amfetamíns og kannabis.

Maðurinn neitaði að sök í fyrri ákæru og sagðist ekki hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Hann hafi gleypt poka með einu grammi af amfetamíni áður en lögreglan hafði afskipti af honum því hann vildi ekki vera tekinn fyrir vörslu fíkniefna.

Þá hafi hann verið með vini sínum deginum áður. Vinurinn hafi verið að reykja kannabis og þær óbeinu reykingar geti skýrt hvers vegna kannabis mældist í þvagi hans. Maðurinn játaði svo skýlaust þau brot sem honum voru gefin að sök í seinni ákærunni.

Dómurinn taldi framburð ákærða ekki trúverðugan og í engu samræmi við gögn málsins. Miðað við gögn málsins og framburð annarra vitna, þar á meðal lögreglumanna, taldi dómurinn það hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði ekið undir í mars.

Með brotum sínum rauf hann reynslulausn sem honum hafði verið veitt í mars 2012. Þá hafði hann þrisvar sinnum áður verið tekinn fyrir akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna. Var til þess horft þegar refsing var ákveðin, 15 mánaða fangelsi og svipting ökuréttinda ævilangt.

Dóminn í heild sinni má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×