Innlent

Óveður á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Óveður er á Kjalarnesi og mjög miklar kviður og þar er ekkert ferðaveður eins og er. Sömuleiðis er óveður undir Hafnarfjalli. Vindhviður á Kjalarnesi eru 30 til 40 metrar á sekúndu, en mun hægja fljótlega upp úr hádegi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Búast má við hríð á láglendi á Vestfjörðum í dag og ofankomu og takmörkuðu skyggni á fjallvegum á Norðurlandi. Líklegast verður frostlaust og slydda neðan 100 til 300 metra hæðar framan af degi. Á Suðurlandi eru vegir þó greiðfærir.

Sömu sögu er að segja af mest öllu Vesturlandi, en hálka og éljagangur er á Holtavörðuheiði. Þá er hálka og óveður á Laxárdalsheiði og hálkublettir og óveður á Fróðárheiði og á Sunnanverðu Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er ófært og stórhríð á Steingrímsfjarðarheiði og Klettsáls.  Hálka og stórhríð er á Gemlufallsheiði og á Hjallaháls. Snjóþekja og éljagangur er á Þröskuldum.  Óveður er á Mikladal. Ófært er á Hrafnseyrarheiði en þæfingsfærð á Dynjandaheiði. Hálka og óveður er á Ennisháls. Ófært er norður í Árneshrepp á Ströndum.

Hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Norðurlandi. Hálka og éljagangur er á Öxnadalsheiðir og óveður er í Húnavatnssýslum. Þá er krapi og stórhríð á Þverárfjalli og krapi og éljagangur á Siglufjarðarvegi, Köldukinn og Fljótsheiði.

Vegir á Austurlandi eru greiðfærir að mestu þó er hálkublettir á nokkrum fjallvegum. Hálkublettir og éljagangur er á Fjarðarheiði. Autt er með suðausturströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×