Innlent

Nemendur Háskólans í Reykjavík mótmæla með nesti

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mótmælin fara fram á morgun.
Mótmælin fara fram á morgun. Vísir / Valli
Nemendur Háskólans í Reykjavík ætla að mótmæla háu verði og þjónustunni í Málinu, veitingasölunni í skólanum. Boðað hefur verið til nestismótmæla í skólanum á morgun; það er að enginn versli við Málið á morgun heldur taki með sér nesti. Rúmlega 600 einstaklingar hafa boðað þátttöku í mótmælunum.

„Nemendur kalla eftir því að þjónustan í Málinu verði bætt, núverandi þjónustuhætti hafa leitt til þess að margir kjósa að versla ekki við Málið,“ segir á Facebook-síðu mótmælanna. Þar segir að nemendur krefjist einnig útskýringa á hækkunum á vörum í veitingasölunni en verðkönnun Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík sýndi allt að 20 prósenta hækkun.

Mótmælin virðast eiga rætur í stöðuuppfærsla nemanda við skólann þar sem hann lýsti slæmu viðmóti starfsmanns veitingasölunnar. Þegar þetta er skrifað hafa um 350 látið sér líka við stöðuuppfærsluna og tæplega 70 ritað við hana ummæli. Nokkrir nemendur skólans segja sína upplifun af veitingasölunni í athugasemdunum.

Framkvæmdastjór Málsins segir í athugasemdum við stöðuuppfærsluna að hún muni fara yfir málið með starfsfólki sínu. „Þjónustan snýr að okkur og mun ég hitta mitt starfsfólk strax og fara yfir málið og gera betrumbætur,“ segir Guðríður María Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×