Innlent

Kannabisræktun á Klapparstíg: Ekki hægt að sanna brot leigjandans

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ræktunin var í fjölbýlishúsi við Klapparstíg norðan við Hverfisgötu.
Ræktunin var í fjölbýlishúsi við Klapparstíg norðan við Hverfisgötu.
Karlmaður hefur verið sýknaður af ákæru um kannabisræktun í íbúð á þriðju hæð í fjölbýli við Klapparstíg í Reykjavík. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þessari niðurstöðu á föstudag.

Forsaga málsins er sú að eldur kviknaði í íbúðinni laugardagskvöldið 15. júní 2013 í herbergi þar sem plönturnar voru ræktaðar. Íbúi annarrar íbúðar varð var við lykt og reyk frá íbúðinni sem var mannlaus og gerði slökkviliði viðvart. Eldurinn var bundinn við eitt herbergi íbúðarinnar þar sem kannabisræktun fór fram. Gekk greiðlega að slökkva eldinn og lagði lögregla hald á 67 kannabisplöntur, 16 gróðurhúsalampa, 3 síur, 10 straumbreyta og eina viftu. Hæð plantnanna var á bilinu 25 cm til 78 cm.

Lögregla hafði um kvöldið samband við eiganda íbúðarinnar sem tjáði henni að íbúðin væri í leigu. Reyndi lögregla endurtekið að ná sambandi við meintan leigjanda sem loks svaraði með SMS-skilaboðum á mánudeginum. Væri hann í slæmu símasambandi en myndi hafa samband þegar hann sneri aftur í bæinn daginn eftir.

Eigandi íbúðarinnar og ákærði voru ekki sammála hvort sá síðarnefndi væri leigjandi að íbúðinni eða ekki. Eigandinn vísaði til húsaleigusamnings til eins árs frá 1. apríl 2013. Hefði leigjandinn greitt fyrir fyrsta mánuðinn í reiðufé en síðan hefði leigjandinn ekki staðið í skilum. Ákærði benti hins vegar á að samningnum hefði aldrei verið þinglýst. Hann hefði hætt við að leigja íbúðina þegar sinnaðist hjá mönnunum tveimur skömmu eftir undirritun samningsins. Ákærði sagði þá hafa verið vini lengi en slest hafi upp á vinskapinn. Hann hafi aldrei tekið við lyklum að íbúðinni.

67 plöntur voru gerðar upptækar. Myndin er úr safni.
Samkvæmt samningi var húsaleigan 191 þúsund krónur. 180 þúsund fyrir leiguafnot og 11 þúsund fyrir rafmagn og hita. Sérstaklega var tekið fram að leigjandi þyrfti að greiða aukalega ef rafmagns- og hitareikningar yrðu hærri.

Meðal þeirra sem báru vitni fyrir dómi var kærasta ákærða þar til í maí á þessu ári. Sagði hún ákærða að mestu hafa búið hjá sér á því tímabili sem var til rannsóknar en annars dvalið hjá mömmu sinni. Hún hefði aldrei heyrt að ákærði væri með íbúð til leigu. Sonur hennar staðfesti þetta.

Eigandinn sagði að á húsfundi í kjölfar brunans hefði komið fram að einhver íbúi hefði séð til ákærða á göngum hússins fyrir brunann. Sá vitnisburður fékkst ekki staðfestur fyrir dómi.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að engin staðfesting liggi fyrir að greidd hafi verið leiga af íbúðinni. Enginn geti staðfest að ákærði hafi tekið við lyklavöldum að íbúðinni. Enginn nágranni geti staðfest að ákærði hafi búið í íbúðinni á þeim tíma sem ræktun fíkniefna fór fram. Því verði ekki komist hjá því að sýkna ákærða.

Allur sakarkostnaður greiðist af ríkissjóði. Plönturnar 67 auk ræktunarbúnaðar voru gerð upptæk af lögreglu. Dóminn í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×