Innlent

Sjúklingar sendir í of margar krabbameinsmeðferðir

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Tækjaskortur leiðir til þess að dæmi eru um að sjúklingar séu sendir í of margar krabbameinsmeðferðir á Íslandi. Þetta segir fyrrverandi formaður Læknafélagsins sem telur tuttugu ára gamla læknisfræði rekna hér á landi.

Birna Jónsdóttir, röntgenlæknir og fyrrverandi formaður Læknafélags Íslands, segir skort á því að tæki séu endurnýjuð á sjúkrahúsum hér á landi farinn að hafa verulega áhrif á þá þjónustu sem sjúklingar fá. „ Við höfum ekki getað tekið inn nýja tækni eins og við hefðum þurft. Þannig að við erum að bjóða upp á úrræði sem voru staðall annars staðar fyrir kannski 20 árum,“ segir Birna. 

Hún segir að í raun og veru sé rekin tuttugu ára gömul læknisfræði sem hafi það til dæmis í för með sér að krabbameinssjúklingar séu stundum sendir í of margar meðferðir. „ Ef að við ætlum að ganga úr skugga um það hvernig lækning gengur í sumum tegundum krabbameina þá myndi maður eftir fjóra kúra setja sjúklinginn í nákvæma rannsókn á því hvort að allt mein er horfið. Við höfum ekki tækin til þess að gera þetta á Íslandi. Þannig að til öryggis gefum við fimmta kúrinn af krabbameinslyfi sem kannski fer ekkert mjög vel í þig,“ segir Birna. 

Hún segir jáeindaskanna vera eitt þeirra tækja sem vanti. Það sé næmasta tækið sem geti sýnt hvernig sjúkdómurinn dreifist í líkamanum. „ Við ættum að setja á milli tvö og þrjú þúsund sjúklinga í svona tæki á hverju ári. Ef það væri hérna þá myndum við gera það en við erum kannski að gera á milli eitt eða tvö hundruð svona rannsóknir með því að senda sjúklingana til Danmerkur í myndatöku,“ segir Birna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×