Innlent

Segir bæjarstjórann vera í pólitísku stríði

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Boðað verkfall Starfsmannafélags Kópavogs hefst að óbreyttu á mánudagsmorgun en það er helst tvennt sem aðilar deila um. Annars vegar gildistökuákvæði samningsins. Bæjarfélagið vill að samningurinn gildi frá 1. október en starfsmannafélagið að gildistíminn sé 1. maí síðastliðinn. Hins vegar er deilt um sérákvæði um háskólamenntað fólk. Kópavogsbær vill taka út úr kjarasamningi sérákvæði um að háskólamenntað fólk í Starfsmannafélaginu fái laun samkvæmt kjarasamningum háskólamanna, alls um 20 manns. Starfsmannafélagið leggst hins vegar alfarið gegn þessu.

Um 700 starfsmenn bæjarfélagsins munu leggja niður störf á mánudag, takist ekki að semja.

Hvaða áhrif kemur verkfall til með að hafa?

Við munum lama bæjarfélagið, sem að okkur þykir óskaplega leitt. Sundlaugar munu loka, félagsstarf aldraðra mun leggjast af. Við munum lama leikskóla, við munum lama starfsemi á leikskólum, þar á meðal í dægradvöl sem að mun loka,“ segir Jófríður Hanna Sigfúsdóttir, formaður Starfsmannafélags Kópavogs.

Þá segir hún bæjarstjórann í Kópavogi vera í pólitísku stríði við sig, en vill þó ekki útskýra það nánar.

Með hvaða hætti?

„Það má kannski segja að hann sé í stríði við formann Starfsmannafélags Kópavogs, og þá persónulegu stríði.“

Við þig þá?

„Við mig, já,“ segir Jófríður.

Staðan mikið áhyggjuefni

Ármann Kr. Ólafsson segir stöðuna mikið áhyggjuefni. Bæjarfélagið muni gera sitt allra besta til að veita íbúum nauðsynlega þjónustu ef til verkfalls kemur.

Eruð þið að bjóða ykkar starfsmönnum sömu kjör og í öðrum sveitarfélögum?

„Við höfum alltaf sagt, allan tímann, að við viljum skrifa undir þann kjarasamning sem að önnur sveitarfélög í landinu hafa gert. Því var hafnað af Starfsmannafélagi Kópavogs,“ segir Ármann.

Formaður Starfsmannafélags Kópavogs segir að þú sért í pólitísku stríði við sig. Er það svo?

„Þetta kemur mér alveg á óvart. Það er svo af og frá. Ég veit ekki af hverju ég ætti að vera í pólitísku stríði við hana. Í svona kjaradeilum má aldrei neitt svona persónulegt spila inn í,“ segir Ármann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×